Erlent

Fjölda eldflauga skotið að Ísrael

Samúel Karl Ólason skrifar
Eldflaugum skotið frá Gasa í dag.
Eldflaugum skotið frá Gasa í dag. AP/Khalil Hamra

Tugum eldflauga hefur verið skotið frá Gasa að Ísrael og Jerúsalem í dag. Forsvarsmenn Hamas höfðu gefið yfirvöldum Ísraels frest til klukkan þrjú í dag, að íslenskum tíma, til að yfirgefa al-Aqsa moskuna á musterishæð.

Loftvarnarsírenur hafa hljómað víða um Suður-Ísrael. Enn sem komið er hafa engar fregnir borist af mannfalli. Her Ísraels segir þó að einn maður hafi verið fluttur á sjúkrahús eftir að eldflaug var skotið að bíl sem hann var í nærri landamærum Gasa.

Þá hafa fregnir borist af því að Ísraelar hafi gert loftárásir á Gasa í kjölfar eldflaugaárásanna. Heilbrigðisráðuneyti Palestínu segir níu hafa fallið í þeim. Þar á meðal þrjú börn. Her Ísraels segir þau ekki hafa fallið í loftárás heldur vegna eldflaugar sem skotið var frá Gasa og fór af leið.

Hamas-liðar skutu upprunalega sjö eldflaugum að Jerúsalem. Ein þeirra var skotin niður og hinar munu ekki hafa valdið skaða. AP fréttaveitan hefur eftir talsmanni Hamas að árásirnar væru svar við aðgerðum Ísraels í Jerúsalem og hótaði hann frekari aðgerðum ef Ísraelar geri aftur atlögu að al-Aqsa moskunni eða flytji fjölskyldur Palestínumanna frá austurhluta Jerúsalem, eins og til stendur.

Mikil spenna hefur verið í borginni undanfarna daga, sem rekja má til þess að Ísraelar ætla sér að reka Palestínumenn frá hverfi í Austur-Jerúsalem, sem landtökumenn hafa sölsað undir sig. Palestínumenn vilja að borgarhlutinn verði höfuðborg sjálfstæðs ríkis þeirra í framtíðinni en Ísraelar hafa hersetið svæðið frá 1967.

Sjá einnig: Mikil átök milli mótmælenda og lögreglu á Musterishæð

Times of Israel segir að íbúum í bæ í suðurhluta landsins hafi verið sagt að fara heim og læsa hurðum sínum, vegna fregna um að hryðjuverkamenn hafi laumað sér yfir landamæri Ísraels og Gasa. Sú viðvörun var þó dregin til baka.

AP segir spennuna gífurlega mikla í dag og að mögulega skelli á nýtt stríð milli Ísraels og Hamas. Her Ísraels hefur sent aukið herlið að landamærum Ísraels og Gasa. Talsmaður hersins sagði á fimmta tímanum í dag að herinn myndi bregðast við og innrás væri jafnvel á borðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×