Erlent

Af­brigðið sem geisar um Ind­land skil­greint sem al­þjóð­legt á­hyggju­efni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá bálför látins Covid-sjúklings í Nýju-Delí í Indlandi. Líkhús og útfararstofur víða um Indland hafa ekki undan vegna þess gríðarlega fjölda sem látið hefur lífið úr Covid-19 að undanförnu og því hafa lík sumra verið brennd á götum úti.
Frá bálför látins Covid-sjúklings í Nýju-Delí í Indlandi. Líkhús og útfararstofur víða um Indland hafa ekki undan vegna þess gríðarlega fjölda sem látið hefur lífið úr Covid-19 að undanförnu og því hafa lík sumra verið brennd á götum úti. AP/Ishant Chauhan

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur gefið út að það afbrigði kórónuveirunnar sem farið hefur eins og eldur í sinu um Indland sé áhyggjuefni á alþjóðavísu. Rannsóknir sýna að afbrigðið kunni að vera meira smitandi en upprunaleg afbrigði veirunnar.

Afbrigðið, sem hefur fengið heitið B.1.617, er það fjórða sem WHO hefur sett á lista yfir afbrigði sem teljast áhyggjuefni á alþjóðavísu. Hin þrjú voru fyrst uppgötvuð í Brasilíu, Bretlandi og Suður-Afríku.

„Við skilgreinum [afbrigðið] sem áhyggjuefni á alþjóðlegan mælikvarða. Það eru vísbendingar um að það sé meira smitandi en önnur,“ hefur Reuters eftir Mariu Van Kerkhove, embættismanni innan WHO.

Önnur bylgja kórónuveirufaraldursins geisar nú í Indlandi og aldrei hafa fleiri látið lífið af völdum Covid-19 þar í landi en á síðustu vikum.

Hátt í 23 milljónir manna hafa greinst með kórónuveiruna í Indlandi og yfir 246 þúsund manns látist frá upphafi faraldursins. Sérfræðingar telja þó að tölur yfir smitaða og látna séu stórlega vanáætlaðar í landinu, sem telur 1,3 milljarða íbúa.


Tengdar fréttir

Líkum skolar upp á ár­bakka Gan­ges

Minnst fjörutíu líkum hefur skolað upp á árbakka Ganges-árinnar í norðurhluta Indlands. Ekki er vitað hvaðan líkin koma en indverskir fjölmiðlar hafa leitt að því líkum að um fórnarlömb kórónuveirufaraldursins sé að ræða.

Íslendingar gefa Indverjum öndunarvélar

Í ljósi alvarlegrar stöðu kórónuveirufaraldursins á Indlandi hafa þarlend stjórnvöld þegið boð íslenskra stjórnvalda um að senda 17 öndunarvélar til Indlands, segir í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.