Erlent

Líkum skolar upp á ár­bakka Gan­ges

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Talið er að líkin megi rekja til tilraunar til líkbrennslu við árbakka Ganges.
Talið er að líkin megi rekja til tilraunar til líkbrennslu við árbakka Ganges. Getty/Ritesh Shukla

Minnst fjörutíu líkum hefur skolað upp á árbakka Ganges-árinnar í norðurhluta Indlands. Ekki er vitað hvaðan líkin koma en indverskir fjölmiðlar hafa leitt að því líkum að um fórnarlömb kórónuveirufaraldursins sé að ræða.

Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu og segir að staðarmiðlar hafi sumir greint frá því að allt að hundrað lík hafi fundist við árbakkann. Ástand líkanna gefi einnig til kynna að þau hafi verið í vatninu í marga daga. Þau fundust stuttu frá skilum Bihar og Uttar Pradesh héraðanna.

„Það er líklegt að þessar líkamsleifar hafi komið úr Uttar Pradesh héraði,“ sagði Ashok Kumar talsmaður héraðsstjórnar á blaðamannafundi. Hann sagði að líkamsleifarnar yrðu annaðhvort grafnar eða brenndar.

Þá segir í tilkynningu að líkin hafi verið útþembd og að hluta brennd. Líklegt er talið að líkin hafi endað í ánni eftir að tilraun hafi verið gerð til að brenna líkin við árbakkann. Lík látinna eru alla jafnan brennd á Indlandi, en ekki grafin, og er því talið líklegt að tilraun hafi verið gerð til að brenna líkin í útför.

Önnur bylgja faraldursins ríður nú yfir Indland og dauðsföll hafa aldrei verið fleiri en á síðustu vikum. Flestar útfararstofur landsins eru yfirfullar og hafa hvorki mannsskap né pláss til að halda í við að brenna líkin sem hrannast upp.

Meira en 22,6 milljón hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni á Indlandi og 246.116 hafa dáið af völdum veirunnar frá upphafi faraldursins svo vitað sé um. Sérfræðingar telja hins vegar að dauðsföllin séu talsvert fleiri.


Tengdar fréttir

Íslendingar gefa Indverjum öndunarvélar

Í ljósi alvarlegrar stöðu kórónuveirufaraldursins á Indlandi hafa þarlend stjórnvöld þegið boð íslenskra stjórnvalda um að senda 17 öndunarvélar til Indlands, segir í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Mikil fjölgun smitaðra þrátt fyrir methlutfall bólusettra

Yfirvöld í eyríkinu og ferðamannaparadísinni Seychelleseyjum í Indlandshafi hafa komið aftur á ströngum takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins eftir að smituðum fjölgaði meir en nokkru sinni áður í vikunni. Þetta gerðist þrátt fyrir að hvergi sé hærra hlutfall íbúa bólusett fyrir veirunni í heiminum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×