Erlent

Afléttingar víða í Evrópu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Þessir Tékkar fóru í verslunarmiðstöð í fyrsta sinn í marga mánuði í dag.
Þessir Tékkar fóru í verslunarmiðstöð í fyrsta sinn í marga mánuði í dag. AP/Petr David Josek

Slakað var á kórónuveirutakmörkunum víðs vegar um Evrópu bæði í dag og um helgina. Smitum hefur fækkað mikið í fjölda ríkja og sífellt fleiri eru bólusett.

Ástandið í Tékklandi nú er það besta frá því í ágúst. Því var fjölda fyrirtækja leyft að opna á nýjan leik í dag. Bílasölur, sólbaðsstofur, skósmiðir og hlúðflúrarar eru á meðal þeirra sem geta nú tekið aftur við viðskiptavinum.

Sjá mátti biðraðir fyrir utan fjölda verslana og fyrirtækja í höfuðborginni Prag í dag. „Þetta er auðvitað mikill léttir. Ég þarf að versla alveg heilan helling,“ hafði AP-fréttaveitan eftir Dan Cooper, sem var á leið inn í verslunarmiðstöð að kaupa belti og ýmislegt fleira.

Aftur í bjór

Bjórþyrstir Bæjarar gátu svo sótt hina ýmsu bjórgarða á nýjan leik eftir að yfirvöld í sambandslandinu slökuðu á takmörkunum og leyfðu veitingastöðum að bjóða upp á mat og drykk utandyra.

Til þess að slaka á takmörkunum í Þýskalandi er miðað við að nýgengi smita sé undir hundrað á hver hundrað þúsund í hverri borg og sýslu fyrir sig.

Leikur að læra

Grísk börn sneru aftur í skólann í dag, að því gefnu að þau hafi fengið neikvæða niðurstöðu úr skimun, í fyrsta skipti í marga mánuði. Létt hefur verið á takmörkunum í skrefum á Grikklandi í von um að geta tekið á móti ferðamönnum í sumar.

Veitingastöðum, kaffihúsum og krám var leyft að opna í síðustu viku í fyrsta sinn frá því í byrjun nóvembermánaðar.

Börn mæta aftur í skólann í Aþenu, höfuðborg Grikklands.AP/Michael Varaklas

Ekki lengur neyðarástand

Neyðarástandsyfirlýsing féll úr gildi á Spáni á sunnudag og var því slakað á takmörkunum í Barcelona. Veitingahús og barir í borginni mega nú opna á ný, í fyrsta sinn í sex mánuði.

Heimilt verður að taka á móti gestum til klukkan ellefu að kvöldi en ekki mega fleiri en fjögur sitja við sama borð. Einungis má fylla þrjátíu prósent sæta innandyra.

Beint á barinn

Fjöldi flykktist á krár í Brussel, höfuðborg Belgíu, um helgina eftir að barir voru opnaðir á ný í fyrsta sinn frá því í október og útgöngubann fellt úr gildi.

Veitingamenn og eigendur skemmtistaða hafa mótmælt af krafti síðustu vikur og fengu loksins að opna um helgina.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.