Erlent

Yfir þúsund flótta­menn til Ítalíu í dag

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ítalska eyjan Lampedusa liggur austur af norðurafríkuríkinu Túnis.
Ítalska eyjan Lampedusa liggur austur af norðurafríkuríkinu Túnis. Tullio M. Puglia/Getty

Meira en eitt þúsund flóttamenn náðu landi á ítölsku eyjunni Lampedusa í dag.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að einn bátur hafi flutt hátt í fjögur hundruð karla, konur og börn á eyjuna. Bæjarstjórinn á eyjunni telur að þennan mikla fjölda mega rekja til batnandi veðurskilyrða til bátsferða frá norðurhluta Afríku, en Lampedusa er einn helsti viðkomustaður flóttafólks og farenda frá Norður-Afríku á leið sinni til Evrópu.

Um það bil ellefu þúsund flóttamenn hafa komið á eyjuna það sem af er ári. Á sama tíma í fyrra var sá fjöldi rúmlega fjögur þúsund.

Matteo Salvini, formaður ítalska popúlistaflokksins Norðurbandalagsins, hefur krafist þess að fá fund með Mario Draghi, forsætisráðherra Ítalíu, vegna þess fjölda flóttamanna sem komið hefur til Ítalíu að undanförnu.

„Á meðan milljónir Ítala eiga í erfiðleikum getum við ekki hugsað um þúsundir ólöglegra innflytjenda,“ sagði Salvini.

Sjálfur bíður Salvini þess að réttað verði yfir honum eftir að hann gerði tilraun til þess að koma í veg fyrir að björgunarskip með yfir hundrað flóttamenn innanborðs legðist að bryggju á Lampedusa í ágúst 2019, þegar hann var innanríkisráðherra.

Saksóknarar í málinu telja Salvini hafa svipt farþega skipsins frelsi sínu með ólögmætum hætti og því gæti hann átt yfir höfði sér allt að 15 ára fangelsisdóm.


Tengdar fréttir

39 látnir eftir að bátar sukku undan ströndum Túnis

Að minnsta kosti 39 eru látnir eftir að tveir bátar hlaðnir farandfólki sukku undan ströndum Túnis í gær. Fólkið var að freista þess að komast yfir Miðjarðarhafið til ítölsku eyjunnar Lampedusa, að sögn varnarmálaráðuneytis Túnis.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×