Íslenski boltinn

Guðmundur Andri tikkar í réttu boxin og losnar úr sóttkví í dag

Sindri Sverrisson skrifar
Guðmundur Andri Tryggvason kemur til Vals frá Start í Noregi.
Guðmundur Andri Tryggvason kemur til Vals frá Start í Noregi. mynd/ikstart.no

„Við fögnum alltaf þegar við fáum góða leikmenn,“ segir Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, um komu knattspyrnumannsins Guðmundar Andra Tryggvasonar á Hlíðarenda.

Samningur Guðmundar Andra við Val er til fjögurra ára. Hann fær leikheimild með Val á morgun og gæti því mögulega tekið þátt í stórleiknum gegn FH á Hlíðarenda á sunnudaginn. Hann hefur hins vegar verið í sóttkví og gæti því aðeins náð tveimur fyrstu æfingum sínum með Val fyrir þann leik.

„Við erum að fá góðan leikmann sem að hefur sannað sig í þessari deild. Hann er á góðum aldri og tikkar í þau box sem að við lítum eftir með framliggjandi menn hjá okkur,“ segir Heimir.

Guðmundur Andri er 21 árs gamall og kemur til Vals frá Start í Noregi. Hann er uppalinn hjá KR og lék þar sína fyrstu leiki í efstu deild en fór svo til Noregs fyrir tímabilið 2018.

Hann sló svo í gegn með Víkingi R. á bikarmeistaratímabili liðsins 2019 og skoraði alls átta mörk fyrir liðið það tímabil, þar af sjö í Pepsi Max-deildinni.

Guðmundur Andri, sem er sonur markahæsta knattspyrnumanns Íslands frá upphafi, Tryggva Guðmundssonar, lék hins vegar ekkert með Start í norsku úrvalsdeildinni í fyrra. Meiðsli settu þá stórt strik í reikninginn hjá honum en Heimir segir að hann hafi nú náð sér á strik:

„Staðan á honum er fín. Hann er búinn að æfa vel frá því í desember eftir að hafa verið töluvert meiddur á síðustu leiktíð. Hann losnar úr sóttkví í dag og við tökum stöðuna á honum á æfingum varðandi leikinn á sunnudaginn,“ segir Heimir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.