Erlent

Fylgjast grannt með eldflaug sem á að hrapa til jarðar um helgina en enginn veit hvar

Samúel Karl Ólason skrifar
Eldflauginni var skotið á loft á dögunum og flutti hún fyrsta hluta nýrrar geimstöðvar á braut um jörðu.
Eldflauginni var skotið á loft á dögunum og flutti hún fyrsta hluta nýrrar geimstöðvar á braut um jörðu. AP/Ju Zhenhua

Geimvísindamenn fylgjast nú náið með rúmlega tuttugu tonna eldflaug frá Kína sem er á braut um jörðu. Búist er við því að eldflaugin muni hrapa til jarðar um helgina og ekki er vitað hvar. Mögulegt er að hún brenni upp í gufuhvolfinu en líklegra þykir að hlutar hennar muni ná til jarðar.

Ekki verður hægt að segja til um það nema með nokkurra klukkustunda fyrirvara. Sérfræðingar segja þó litlar líkur á því að eldflaugin valdi mannskaða.

Eldflauginni var skotið á loft frá Kína á dögunum þegar fyrsta hluta nýrrar geimstöðvar Kínverja var skotið á loft. Einhverjir sérfræðingar áætla að um níu tonn af eldflauginni muni ná til jarðar.

John Kirby, talsmaður varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna, sagði blaðamönnum í vikunni að of snemmt væri að segja til um hvar eldflaugin muni lenda. Hins vegar séu um 70 prósent líkur á því að hún muni lenda í sjó. Lendi hún á landi séu þar að auki litlar líkur á því að hún lendi á byggðu svæði.

Eldflaugin yrði meðal tíu stærstu hluta sem hefðu komið aftur inn í gufuhvolf jarðarinnar án stjórnar.

Hér má sjá nýlegt myndband Geimvísindastofnunar Evrópu (ESA) um geimrusl og þann vanda sem það hefur skapað.

Í grein Washington Post segir að ekki sé vitað til þess að maður hafi nokkurn tímann tapað lífi sínu við að verða fyrir braki úr geimnum. Hins vegar hafi mjög svo óheppin kýr drepist á Kúbu árið 1961 þegar brak af himnum ofan féll á hana.

Flestar eldflaugar sem skotið er út í geim eru látnar brenna upp í gufuhvolfinu og brotlenda á fyrirfram ákveðnu hafsvæði. Þrátt fyrir það er gífurlega mikið af alls konar braki á braut um jörðu og þar af rúmlega tvö þúsund eldflaugar og hlutar eldflauga, sem vitað er um, samkvæmt frétt Space.com og CelesTrak, þar sem hægt er að sjá umfang vandans.

Af þessum 2.033 eldflaugum og eldflaugabrotum eru 546 frá Bandaríkjunum og 169 frá Kína. Rúmlega þúsund þeirra var skotið á loft frá Rússlandi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.