Íslenski boltinn

Hljóm­sveitin KALEO framan á treyjum Aftur­eldingar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Á myndinni eru Gísli Elvar Halldórsson, formaður mfl. ráðs, Jökull Júlíusson og Magnús Már Einarsson þjálfari Aftureldingar.
Á myndinni eru Gísli Elvar Halldórsson, formaður mfl. ráðs, Jökull Júlíusson og Magnús Már Einarsson þjálfari Aftureldingar. Raggi Óla

Lið Aftureldingar í meistaraflokki karla í knattspyrnu mun bera merki hljómsveitarinnar KALEO framan á treyjum sínum næstu tvö árin. Afturelding gaf út fréttatilkynningu þess efnis í gærkvöld.

Hljómsveitina KALEO ættu flestir landsmenn að kannast við enda gert það gott hér á landi sem og Vestanhafs undanfarin ár. Hljómsveitin á rætur að rekja til Mosfellsbæjar og hefur nú ákveðið að gerast aðalstyrktaraðili meistaraflokks karla í knattspyrnu. Mun Afturelding bera merki Kaleo framan á treyjum sínum næstu tvö árin. 

Liðið leikur í Lengjudeildinni í sumar og stefnir að því sama að ári.

„Um er að ræða sögulegan samning þar sem ekki er vitað til að heimsfræg hljómsveit hafi áður auglýst framan á búningum félags á Íslandi. KALEO á aðdáendur úti um allan heim og búast má við að Aftureldingar treyjur með merki KALEO muni seljast í öllum heimshornum í sumar. Þrír af meðlimum KALEO spiluðu fótbolta með yngri flokkum Aftureldingar og stórsöngvarinn Jökull Júlíusson var liðtækur leikmaður,“ segir í fréttatilkynningunni.

„Tengingin við Mosfellsbæ er alltaf óendanlega sterk og við höfum alltaf fundið fyrir miklum stuðning frá sveitungum okkar. Þetta er því frábært tækifæri til að gefa til baka og einfaldlega heiður að starfa með mínu uppeldisfélagi! Það hefur verið ótrúlega gaman að sjá félagið vaxa síðustu ár og verður gaman að fylgjast með framhaldinu,“ segir Jökull Júlíusson, söngvari sveitarinnar.

Afturelding mætir Kórdrengjum í 1. umferð Lengjudeildarinnar þann 8. maí.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.