Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fylkir - FH 0-2 | Klaufaleg brot urðu Fylki að falli

Sindri Sverrisson skrifar
Steven Lennon skoraði fyrsta mark FH á leiktíðinni.
Steven Lennon skoraði fyrsta mark FH á leiktíðinni. vísir/vilhelm

Matthías Vilhjálmsson skoraði í sínum fyrsta leik með FH í áratug þegar liðið vann Fylki 2-0 í Árbæ í fyrstu umferð Pepsi Max-deildarinnar í fótbolta.

FH komst yfir með vítaspyrnu Stevens Lennon í fyrri hálfleik, eftir klaufalegt brot hins unga Ólafs Kristófers Helgasonar sem stóð sig annars vel í marki Fylkis.

Vendipunktur leiksins varð svo á 36. mínútu þegar Unnar Steinn Ingvarsson fékk sitt annað gula spjald á tveimur mínútum, og þar með rautt.

Manni færri áttu Fylkismenn litla möguleika, sérstaklega eftir að Matthías skoraði snemma í seinni hálfleik.

Unnar Steinn of ákafur í frumsýningunni

Fylkismenn svekkja sig eflaust á dómgæslu Erlends Eiríkssonar þegar þeir leggjast á koddann í kvöld. Það er sú leið sem að menn fara svo oft þegar hægt er að deila um dómgæsluna. Sá sem þetta skrifar kýs þó frekar að varpa ábyrgðinni á Fylkismenn sjálfa og virtist Erlendur komast ágætlega frá sínu.

Unnar Steinn, ákafur í að sýna sig og sanna í efstu deild eins og hann á pottþétt eftir að gera í sumar, fór einfaldlega aðeins of vasklega í Eggert Gunnþór Jónsson í skallaeinvígi á miðjunni þegar hann fékk sitt seinna gula spjald og var rekinn af velli.

Ég set að minnsta kosti stærra spurningamerki við fyrra gula spjaldið, fyrir frekar vægt brot á Herði Inga Gunnarssyni úti við hliðarlínu, en kannski var Unnar búinn að safna sér fyrir því. Með það gula spjald á bakinu hefði hann þurft að fara varlegar og FH-ingar, með óhemju mikla yfirburði þegar kemur að reynslu, kunnu að nýta sér það.

Matthías strax kominn á blað

FH var sterkari aðilinn það sem eftir lifði fyrri hálfleiks, eftir að hafa ekki fengið færi fram að vítaspyrnunni á 24. mínútu, og með marki Matthíasar í upphafi seinni hálfleiks voru úrslitin í raun ráðin.

Margar gamlar hetjur hafa komið heim í íslenska boltann og ekki náð að standa undir væntingum en Matthías er strax byrjaður að skora og það veit á gott fyrir titlaþyrsta FH-inga sem afgreiddu leikinn af fagmennsku.

Fylkismenn börðust allt til loka en sköpuðu sér engin almennileg færi og þurfa að bíða lengur eftir sínum fyrstu stigum.

Af hverju vann FH?

Jónatan Ingi og Þórir Jóhann áttu heiðurinn að því að koma FH yfir með laglegum samleik í aðdraganda vítaspyrnunnar. Ein svona snilld breytir öllu og FH hafði tök á leiknum eftir þetta, sérstaklega eftir rauða spjaldið sem hafði auðvitað svo mikil áhrif.

Hverjir stóðu upp úr?

Þórir Jóhann Helgason var frábær á miðjunni hjá FH - sífellt að leita eftir glufum á vörn Fylkis og að búa eitthvað til með sendingum sínum. Það gerði hann einmitt með glæsilegri sendingu á Jónatan þegar vítið var dæmt, og með litlu síðri sendingu á Matthías í seinna markinu.

Eggert batt liðið vel saman á miðjunni og frammistaða FH í heild var svo til fumlaus þó að ekki væri boðið upp á neina flugeldasýningu.

Hallur Húni Þorsteinsson átti prýðisgóðan fyrsta leik í efstu deild, sem vinstri bakvörður Fylkis, og Dagur Dan Þórhallsson var hættulegastur fram á við hjá heimamönnum.

Hvað gekk illa?

Fylkismenn áttu í erfiðleikum með að skapa sér færi og nýi framherjinn, Jordan Brown, hafði lítið fram að færa eftir að hann kom inn á enda staðan þá orðin erfið. Þeir Djair þekkjast vel en þurfa að bíða aðeins lengur eftir að fá að spila saman. 

Hvað gerist næst?

Fylkir sækir HK heim í Kórinn næsta laugardagskvöld en FH tekur á móti Val í sannkölluðum stórleik á sunnudagskvöld eftir rúma viku, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Hörður Ingi Gunnarsson lék sem hægri bakvörður en skipti yfir í vinstri bakvörð í seinni hálfleik þegar Hjörtur Logi fór af velli.vísir/daníel

Hörður Ingi: Fannst þetta ekki vera gult spjald

„Það er geggjað að byrja þetta á þremur stigum og að hafa haldið markinu hreinu,“ sagði Hörður Ingi Gunnarsson, bakvörður FH, sem var áberandi í leiknum og eignaðist marga „vini“ í stúkunni í Árbænum.

FH hafði ekki átt skot í leiknum þegar liðið komst yfir úr vítaspyrnunni um miðjan fyrri hálfleik.

„Það er skiljanlegt að það sé smásviðsskrekkur í mönnum í fyrsta leik, og menn að koma sér í gang, en eftir að þetta gerðist þá fannst mér við vinna okkur vel inn í leikinn og klára þetta með alvöru vilja,“ sagði Hörður.

Hörður átti sinn þátt í rauða spjaldinu sem Unnar Steinn fékk en fyrra gula spjaldið fékk Unnar fyrir brot á Herði:

„Mér finnst hann bara koma í bakið á mér. Ég er ekki dómari svo að ég veit ekki, en mér fannst þetta ekki vera gult spjald,“ sagði Hörður.

Lét áhorfendur ekki trufla sig

Nokkrir stuðningsmanna Fylkis létu hann heyra það eftir brotið, jusu hreinlega yfir hann fúkyrðum út leikinn og sökuðu Hörð um að fara of auðveldlega í grasið. Hörður lét sér fátt um finnast:

„Menn mega hafa sína skoðun en ég læt það ekkert á mig fá og spila bara minn leik,“ sagði Hörður, ánægður með hvernig FH-liðið lítur út núna:

„Mér finnst þetta líta mjög vel út. Menn voru ekkert nógu sáttir með úrslitin á undirbúningstímabilinu en við vorum með menn í meiðslum og þurftum að slípa okkur saman. Þetta er að smella núna og vonandi bara bjartir tímar framundan.“

Hörður og Dagur Dan Þórhallsson, sem kominn er heim frá Noregi og lék sinn fyrsta leik fyrir Fylki, glímdu mikið í leiknum:

„Ég þekki hann úr Hafnarfirði og við vorum á einhverjum tímapunkti saman í U21-landsliðinu. Hann er virkilega sprækur og það er gaman að fá svona leikmann aftur í deildina, og gaman að máta sig á móti svona góðum leikmönnum. Þetta var krefjandi og skemmtilegt,“ sagði Hörður.

Ólafur Ingi Stígsson og Atli Sveinn Þórarinsson misstu Ólaf Inga Skúlason úr þjálfarateyminu í vetur en fengu Tómas Inga Tómasson í hans stað.vísir/vilhelm

Atli Sveinn: Mörg rauð spjöld ef þetta ætti að vera svona

„Það er svekkjandi að fá á sig mark í gegnum miðja vörnina og bæði mörkin þeirra koma í raun þannig,“ sagði Atli Sveinn Þórarinsson, þjálfari Fylkis.

„Við þurfum að loka því betur en að sama skapi þurfum við líka að skapa meira, og ég hefði jafnvel viljað skapa meira eftir að við vorum orðnir manni færri. Að sama skapi verð ég að hrósa mínum mönnum fyrir mikið hjarta og mikinn kraft, og að hafa haldið út í svona langan tíma manni færri,“ sagði Atli Sveinn.

Fylkismenn misstu nefnilega Unnar Stein af velli þegar enn voru tíu mínútur eftir af fyrri hálfleik. Hann fékk seinna gula spjaldið fyrir brot á Eggerti Gunnþóri Jónssyni í skallaeinvígi.

„Þetta voru tveir menn að hoppa upp í skallaeinvígi. Annar er 10 sentímetrum hærri og einhvers staðar verður hinn að hafa hendurnar. Ég held að það væru mörg rauð spjöld ef þetta ætti að vera svona en kannski er ég að gera mig að fífli því ég hef ekki séð þetta aftur í sjónvarpinu. Fyrra brotið var líka ódýrt fannst mér, en Elli [Erlendur Eiríksson] er góður dómari og mér fannst hann dæma leikinn vel en þetta voru samt atvik sem við erum ekki sáttir við,“ sagði Atli Sveinn.

Ólafur vann samkeppnina við Aron

Fylkismenn voru með afar ungt byrjunarlið en þeir voru án Ragnars Braga Sveinssonar og Daða Ólafssonar vegna leikbanns. Hinn 18 ára gamli Ólafur Kristófer Helgason fékk tækifæri í markinu á kostnað Arons Snæs Friðrikssonar:

„Óli er bara búinn að standa sig vel. Það er samkeppni um allar stöður og við ákváðum að spila honum í dag. Óli spilaði vel eins og Hallur Húni vinstra megin,“ sagði Atli Sveinn en Fylkismenn kusu Hall Húna Þorsteinsson mann leiksins í sínum fyrsta leik í efstu deild.

Hallur og Ólafur eru báðir 18 ára og alls voru sjö leikmenn í byrjunarliði Fylkis fæddir árið 2000. Þeir misstu ekki hausinn þrátt fyrir mótlætið í leiknum:

„Nei, það er mikill kraftur í þessum strákum. En það eru engin stig fyrir kennitölur. Við þurfum að snúa bökum saman fyrir næsta leik og gera betur ef við ætlum að ná sigri á móti HK.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.