Enski boltinn

Telja að á­horf muni rúm­lega þre­faldast með auð­veldara að­gengi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það stefnir í að töluvert fleiri fylgist með Dagnýju Brynjarsdóttur og Maríu Þórisdóttur á næstu leiktíð.
Það stefnir í að töluvert fleiri fylgist með Dagnýju Brynjarsdóttur og Maríu Þórisdóttur á næstu leiktíð. Zac Goodwin/Getty Images

Ný rannsókn sýnir að áhorf á kvennaknattspyrnu gæti aukist um að allt að 350 prósent með auknu aðgengi og sýnileika.

The Guardian greinir frá og vitnar þar í rannsókn frá fyrr í vikunni þar sem í ljós kom að það er eftirspurn eftir auðveldara aðgengi að kvennaknattspyrnu. 

Þar segir að áhorf á kvennaknattspyrnu í Bretlandi gæti aukist um 296,7 prósent ef leikirnir væru aðgengilegri í sjónvarpi. Innan Evrópusambandsins gæti aukningin orðið allt að 358,7% og svo 304,6% í Bandaríkjunum.

Könnunin var gerð eftir að Women´s Super League – úvalsdeild kvenna í Englandi – gerði nýjan átta milljón punda sjónvarpssamning. Verða leikirnir nú sýndir á rásum breska ríkisútvarpsins [BBC] sem og aðalrásum Sky Sports.

„Þetta kemur mér ekki á óvart. Nýi sjónvarpssamningurinn þýðir reglulegri umfjöllun fyrir breska áhorfendur – karlkyns, kvenkyns, þá sem hafa ekki áhuga á fótbolta og þar fram eftir götunum – við munum venjast því að íþróttin sé þarna og að hún verði þá hluti af íþróttalegri menningu okkar,“ sagði Dr. Beth Fielding Lloyd. Hún starfar við Sheffield Hallam-háskólann sem fyrirlesari á sviðum íþrótta og þjálfunar.

Könnun sýnir einnig að 61,9% þeirra sem horfa á kvennaknattspyrnu í Bretlandi eru karlmenn og að 34,4% karla og 27,1% kvenna myndu horfa ef leikina ef þeir væru sjónvarpaðir. Áðurnefndur sjónvarpssamningur gerir leikina mun sýnilegri en áður þar sem leikir hafa nær eingöngu verið sýndir á hliðar- eða vefrásum.

Við minnum á að Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu hefst nú í byrjun maí mánaðar og sýnir Stöð 2 Sport beint frá tveimur leikjum í fyrstu umferð. Íslandsmeistarar Breiðabliks taka á móti Fylki þann 4. maí á Kópavogsvelli. Degi síðar mætast Valur og Stjarnan að Hlíðarenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×