Þeir sem eru á leið út í geim að þessu sinni eru Shane Kimbrough og Megan McArthur frá NASA, Akihiko Hoshide, frá Geimvísindastofnun Japans (JAXA) og Thomas Pesquet, frá Geimvísindastofnun Evrópu, ESA.
Geimförunum verður skotið á loft með Falcon 9-eldflaug SpaceX frá Kennedy Space Center í Flórída. Sama eldflaug var notuð til að skjóta fjórum geimförum til geimstöðvarinnar í nóvember.
Sjá einnig: Reglulegar mannaðar geimferðir einkafyrirtækis hafnar
Til stendur að reyna að lenda eldflauginni á drónaskipinu Of Course I Still Love You undan ströndum Flórída.
Geimfararnir munu ferðast í Dragon-geimfari SpaceX og er það sama geimfar og var notað til að skjóta þeim Robert Behnken og Douglas Hurley til geimstöðvarinnar í lok maí í fyrra. Það var fyrsta mannaða geimskotið frá Bandaríkjunum síðan geimskutlurnar voru teknar úr notkun árið 2011 og í fyrsta sinn sem einkafyrirtæki sendi menn út í geim.
Samkvæmt tilkynningu á vef SpaceX mun það taka um tuttugu klukkustundir fyrir geimfarana að komast til geimstöðvarinnar. Þegar þeim áfanga verði náð, þá verði tvö Dragon-geimför tengd geimstöðinni og verður það sömuleiðis í fyrsta sinn sem það gerist.
Skotglugginn svokallaði, það er tímaramminn sem til greina kemur að skjóta geimförunum á loft, opnast klukkan 10:11 á fimmtudagsmorgun. Veðursérfræðingar geimhers Bandaríkjanna segja litlar líkur á því að veður muni koma í veg fyrir geimskotið. Varaskotglugginn opnast 9:39 á föstudagsmorgun.
Nú eru sjö manns um borð í geimstöðinni frá Bandaríkjunum, Rússlandi og Japan. Þar af eru fjórir geimfarar sem SpaceX skaut á loft í nóvember og eiga þau snúa aftur til jarðar á miðvikudaginn 28. apríl.
Sjá má hverjir eru um borð í geimstöðinni og frekari upplýsingar hér á vef NASA.