Erlent

Heyrðu hljóðið í vindinum og leysitæki á Mars

Kjartan Kjartansson skrifar
Nærmynd af steini úr SuperCam-mælitæki Perseverance. Steinninn hlaut heitið Máaz. Það þýðir Mars á tungumáli Navajo-frumbyggja í Norður-Ameríku. Hann reyndist úr basalti.
Nærmynd af steini úr SuperCam-mælitæki Perseverance. Steinninn hlaut heitið Máaz. Það þýðir Mars á tungumáli Navajo-frumbyggja í Norður-Ameríku. Hann reyndist úr basalti. NASA/JPL-Caltech/LANL/CNES/CNRS

Hljóðupptökur úr leysimælitæki bandaríska könnunarjeppans Perseverance á Mars hafa nú verið birtar opinberlega. Á þeim má heyra gnauðandi vindinn á nágrannareikistjörnunni og hljóðið í leysigeisla sem er skotið á steina.

SuperCam-mælitækinu er ætlað að greina steina úr fjarlægð. Leysigeisli sem það skýtur veitir upplýsingar um efnasamsetningu steinanna. Tækið er einnig búið hljóðnema en hljóðið í geislanum þegar hann skellur á steinunum gefur vísindamönnum hugmynd um hversu harðir þeir eru. Það hjálpar til þegar efnasamsetning er keimlík.

„Tökum sem dæmi kalkstein og marmara. Þessi tvö efni hafa nákvæmlega sömu efnasamsetningu, kalsíumkarbónat, en gerólíka efniseiginleika,“ útskýrir Naomi Murdoch frá Loftsiglinga- og geimstofnun Frakklands fyrir breska ríkisútvarpinu BBC.

Fyrsti steinninn sem var skoðaður með SuperCam reyndist vera basalt en ofgnótt er af bergtegundinni á Mars.

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA hefur nú birt hljópupptækur úr SuperCam-tækinu. Í einni þeirra heyrast reglulegir smellir í leysigeislanum þegar hann skellur á steinum. Í annarri má hlusta á marsneska vindinn hvína.

Perseverance lenti á Mars 18. febrúar. Meginmarkmið leiðangursins er að leita að merkjum um líf sem menn telja ekki útilokað að gæti hafa þrifist á Mars í fyrndinni þegar aðstæður þar voru mun lífvænlegri en nú.


Tengdar fréttir

Fyrsta ökuferð Perseverance á rauðu reikistjörnunni

Bandaríski könnunarjeppinn Perseverance notaði hjól sín í fyrsta skipti og ók stuttan spöl á reikistjörnunni Mars í gær. Enn er verið að búa tæki og tól jeppans fyrir fimmtán kílómetra langt ferðalag um yfirborð reikistjörnunnar næstu tvö árin.

NASA birtir myndband af lendingu Preseverance á Mars

NASA birti í dag myndband af sögulegri lendingu vélmennisins Preseverance á Mars í síðustu viku. Myndbandið sýnir síðustu mínúturnar af, að margra mati spennuþrungnum, aðdragandanum að lendingunni og af lendingunni sjálfri þegar hjól vélmennisins, eða geimjeppans, snertu loks yfirborð plánetunnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.