Erlent

Lagðir af stað til al­þjóð­legu geim­stöðvarinnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Crew Dragon geimfarið á toppi Falcon 9 eldflaugar í Flórída.
Crew Dragon geimfarið á toppi Falcon 9 eldflaugar í Flórída. Vísir/SpaceX

Uppfært 19:35

Geimfararnir Doug Hurley og Bob Behnken eru lagðir af stað til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar eftir vel heppnað geimskot frá Flórída. Um er að ræða fyrstu mönnuðu geimferðina frá Bandaríkjunum frá 2011 og fyrsta skiptið sem einkafyrirtæki sendir menn út í geim. Það mun taka geimfarana um 19 klukkustundir að ná til geimstöðvarinnar.

Fyrsta stig eldflaugarinnar sem bar þá út í geim lenti svo á drónaskipi SpaceX, Of Course I Still Love You,undan ströndum Flórída.

Allt virðist hafa heppnast vel og þeir Hurley og Behnken eru nú á braut um jörðu á um 27 þúsund kílómetra hraða.

Upprunlega fréttin

Líklegt er að veðrið muni aftur leika starfsmenn NASA og SpaceX grátt í dag. Fyrsta mannaða geimskoti Bandaríkjanna í tæpan áratug var frestað á miðvikudaginn vegna veðurs og útlit er fyrir að fresta verði því aftur í kvöld.

Jim Bridenstein sagði á miðvikudaginn að veðrið hefði „leikið okkur grátt“ en það hafi verið rétt ákvörðun að fresta geimskotin

Í gærkvöldi áætluðu veðurfræðingar flughers Bandaríkjanna að um helmingslíkur væru á því að fresta þyrfti geimskotinu aftur. Jim Bridenstine, yfirmaður NASA, sagði nú upp úr hádegi að enn væru helmingslíkur á því að af geimskotinu yrði.

Uppfært 18:45

Bridenstine sagði fyrir skömmu að eins og staðan var um klukkustund fyrir ætlað geimskot, liti veðrið vel út. Líklegast yrði geimskotið á áætlun.

Áhyggjur þeirra snúa að mestu að rigningu og skýjum en einnig að mögulegum eldingum og vindhviðum. Það þarf ekki eingöngu að huga að veðrinu á skotstaðnum sjálfum við Kennedy Center í Flórída, heldur einnig að veðrinu undan ströndum Flórída. Ef eitthvað kemur upp á eða hætta þarf við geimskotið gætu þeir Doug Hurley og Bob Behnken þurft að nauðlenda í Atlantshafinu.

Allt frá því að NASA hætti að nota geimskutlurnar gömlu árið 2011 hafa Bandaríkjamenn treyst á Rússa til að ferja geimfara ríkisins til geimstöðvarinnar og frá henni aftur.

Skjóta á geimfarinu á loft frá skotpallinum 39A. Það er sami pallur og notaður var til að skjóta mönnum til tunglsins. Þar var einnig fyrstu geimskutlunni skotið á loft og þeirri síðustu árið 2011.

Geimskotið er einn af fyrstu liðum áætlunar ríkisstjórnar Donald Trump sem snýr að því að koma geimförum til tunglsins árið 2024.

Geimfararnir tveir, Doug Hurley og Bob Behnken, eiga að vera um borð í geimstöðinni í fjóra mánuði í mesta lagi. Það fer eftir því hve vel geimskotið tekst og hvenær hægt verður að skjóta næsta hópi geimfara á loft.

Til stendur að skjóta geimfarinu á loft klukkan 19:22 að íslenskum tíma.

Hér að neðan má fylgjast með útsendingu NASA, sem hefst klukkan þrjú í dag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.