Erlent

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna staðfestir fyrirhugaða Íslandsheimsókn

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
 Antony J. Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna er væntanlegur til Íslands í næsta mánuði. 
 Antony J. Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna er væntanlegur til Íslands í næsta mánuði.  EPA-EFE/Graeme Jennings

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur staðfest komu sína til Íslands í maí hvar hann mun sækja fund aðildarríkja Norðurskautsráðsins. Þetta staðfesti Blinken í ræðu sem hann flutti í kvöld þar sem meginviðfangsefnið var um forystuhlutverk Bandaríkjanna í loftslagsmálum.

Norðurskautsráðið er skipað af Bandaríkjunum, Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Kanada, Noregi, Rússlandi og Svíþjóð. Þá eiga til að mynda Kínverjar áheyrnaraðild að ráðinu. Ísland tók við formennsku í ráðinu í maí 2019 af Finnum.

Blinken fór um víðan völl í ræðu sinni og ræddi meðal annars hlýnun jarðar og bráðnun jökla og þær afleiðingar sem loftslagsbreytingar hafa í för með sér fyrir lífríkið á jörðinni, bæði fyrir menn, dýr, gróður og lífríki hafsins.

„Við verðum að stöðva þessa þróun á meðan það er ekki orðið of seint,“ sagði Blinken sem leggur áherslu á að umhverfismál séu mikilvægur liður í utanríkisstefnu Bandaríkjanna undir ríkisstjórn Joe Biden og Kamölu Harris. Blinken lýsti einnig áhyggjum sínum af því að Kínverjar hafi tekið hratt fram úr Bandaríkjunum og öðrum ríkjum þegar kemur að þróun og tækni endurnýjanlegra orkugjafa.

Fyrsti fundurinn á Íslandi?

Athygli hefur vakið að auk Blinken er Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, einnig væntanlegur til landsins í tengslum við fundinn. Hann mun leiða sendinefnd Rússa á fundi Norðurskautsráðsins og taka við formennsku í ráðinu af Íslandi til næstu tveggja ára.

Koma Lavrov til Reykjavíkur er merkileg að því leyti að hér mun hann væntanlega funda með Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×