Innlent

Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guðlaugur Þór tekur við keflinu af finnskum starfsbróður sínum.
Guðlaugur Þór tekur við keflinu af finnskum starfsbróður sínum. utanríkisráðuneytið
Ísland fer nú með formennsku í Norðurskautsráðinu eftir að Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, tók við formennskukeflinu af Timo Soini, finnskum starfsbróður sínum, á fundi utanríkisráðherra ráðsins sem lauk fyrr í dag í Finnlandi.

Á vef stjórnarráðsins segir að á fundinum hafi Guðlaugur Þór kynnt formennskuáætlun Íslands undir heitinu Saman til sjálfbærni á Norðurslóðum. Í áætluninni er lögð megináhersla á þrjú málefnasvið: málefni hafsins, loftslagsmál og grænar orkulausnir, og fólkið og samfélög á norðurslóðum.

„Einnig verður haldið áfram vinnu við að styrkja innra starf Norðurskautsráðsins og kynna starf þess út á við. Þá verður jafnframt unnið að þeim tæplega eitt hundrað verkefnum sem vinnuhópar Norðurskautsráðsins sinna að jafnaði á sviði umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar,“ segir á vef stjórnarráðsins.

Þá lagði Guðlaugur Þór áherslu á mikilvægi sjálfbærni í ræðu sinni og minnti á að sjálfbærni verður ekki náð nema það ríki jafnvægi á milli umhverfisverndar, efnahagslegrar framþróunar og uppbyggingar samfélaga.

„Hlutverk Norðurskautsráðsins hefur aldrei verið brýnna en einmitt nú og athygli á málefnum norðurslóða aldrei meiri samhliða loftslagsbreytingum og sviptingum í alþjóðastjórnmálum. Það er því verðugt verkefni að taka við formennsku í Norðurskautsráðinu á þessum tímapunkti með samvinnu og sjálfbærni að leiðarljósi,“ sagði Guðlaugur Þór en nánar má lesa um málið á vef stjórnarráðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×