Innlent

Ráðherrar mætast fyrst í Reykjavík

Samúel Karl Ólason skrifar
Sergei Lavrov og Antony Blinken, utanríkisráðherrar Rússlands og Bandaríkjanna.
Sergei Lavrov og Antony Blinken, utanríkisráðherrar Rússlands og Bandaríkjanna. Vísir/AP

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, mun ferðast til Íslands í næsta mánuði. Þá mun hann leiða sendinefnd Rússa á fundi Norðurskautsráðsins í Reykjavík og taka við formennsku í ráðinu til næstu tveggja ára.

Þetta staðfesti María Sakaróva, talskona utanríkisráðuneytis Rússlands á blaðamannafundi í dag. Ráðherrafundurinn mun fara fram 19. og 20. maí. Fyrst var sagt frá heimsókn Lavrov á vef Fréttablaðsins.

Norðurskautsráðið er skipað af Bandaríkjunum, Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Kanada, Noregi, Rússlandi og Svíþjóð. Ísland tók við formennsku í ráðinu í maí 2019 af Finnum.

Koma Lavrov til Reykjavíkur er merkileg að því leyti að hér mun hann væntanlega funda með Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Samband ríkjanna tveggja hefur beðið verulega hnekki á undanförnum árum og eiga þau í deilum um fjölmörg málefni.

Nú í dag tilkynntu Bandaríkjamenn umfangsmiklar refsiaðgerðir gegn Rússum.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, og Vladímír Pútín, forseti Rússlands, töluðu nýverið saman í síma og þar lagði Biden til að þeir myndu funda í persónu á næstunni. Ekki er útlit fyrir að af slíkum fundi verði í kjölfar refsiaðgerða Bandaríkjanna.

Þetta verður fyrsti fundur Lavrov og Blinken, ef af honum verður. Ekki er fulljóst hvernig fundurinn mun fara fram og hverjir sækja hann. Sakaróva sagði þó Lavrov stefna á að mæta í eigin persónu.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu hefur öllum utanríkisráðherrum aðildarlanda, auk leiðtoga frumbyggjasamtaka, verið boðið að koma í eigin persónu en með töluvert minni sendinefndir en gengur og gerist.

Þá verður mikil áhersla lögð á sóttvarnir á fundinum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×