Íslenski boltinn

Blikar unnið tíu leiki í röð í Lengjubikar karla en engan titil

Sindri Sverrisson skrifar
Breiðablik vann alla leiki sína í Lengjubikarnum í ár, sem og í fyrra, en í bæði skiptin var mótið blásið af áður en úrslitaleikirnir höfðu verið spilaðir.
Breiðablik vann alla leiki sína í Lengjubikarnum í ár, sem og í fyrra, en í bæði skiptin var mótið blásið af áður en úrslitaleikirnir höfðu verið spilaðir. vísir/hag

Annað árið í röð verður keppni ekki kláruð í Lengjubikarnum í fótbolta. Stjórn KSÍ samþykkti á fundi í gær að stöðva keppnina og að Meistarakeppni KSÍ færi ekki fram í ár.

Keppni í Lengjubikarnum var frestað vegna sóttvarnaaðgerða stjórnvalda og úr því að Íslandsmótið er að bresta á var ákveðið að ljúka keppninni ekki. Hefðbundnar æfingar voru leyfðar að nýju í gær eftir æfinga- og keppnisbann frá 25. mars.

Í undanúrslitum Lengjubikars karla áttu Breiðablik og Keflavík að mætast, og Valur og Stjarnan. Svo merkilega vill til að Blikar hafa unnið tíu leiki í röð í Lengjubikarnum, í ár og í fyrra, án þess þó að vinna titil því í bæði skiptin hefur mótið verið blásið af án þess að meistari sé krýndur.

Í Lengjubikar kvenna var riðlakeppni ekki lokið og ekki endanlega ljóst hvaða lið hefðu átt að mætast í undanúrslitum.

Engin meistarakeppni

Í Meistarakeppni KSÍ stóð til að efstu lið Pepsi Max-deildanna á síðasta ári myndu mætast, Valur og FH í karlaflokki en Breiðablik og Valur í kvennaflokki. Vanalega mætast Íslands- og bikarmeistarar síðasta árs í þessum leikjum, en bikarmeistarar voru ekki krýndir í fyrra. Nú er ljóst að leikirnir fara ekki fram.

Keppni í Pepsi Max-deild karla hefst 30. apríl og keppni í Pepsi Max-deild kvenna hefst 4. maí.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.