Íslenski boltinn

Nýir leik­menn Kór­drengja brutu sótt­kví

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þrír nýjustu leikmenn Kórdrengja. Frá vinstri: Nathan Dale, Connor Simpson og Conner Rennison.
Þrír nýjustu leikmenn Kórdrengja. Frá vinstri: Nathan Dale, Connor Simpson og Conner Rennison. @kordrengir

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af leikmönnunum þremur gengu til liðs við Lengjudeildarlið Kórdrengja frá Bretlandseyjum í gærmorgun. Leikmennirnir áttu að vera í sóttkví.

Á vef RÚV kemur fram að lögreglan hafi haft afskipt af leikmönnunum sem hefðu átt að vera í sóttkví samkvæmt gagnagrunni smitrakningateymisins. Þetta staðfesti Rafn Hilmar Guðmundsson, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við RÚV.

Davíð Smári Lamude, þjálfari Kórdrengja, segir leikmennina hafa gert þau mistök að fara út á knattspyrnuvöll og sparka í bolta en þeir halda nú til á hóteli í Reykjavík. Þeir vissu að þeir mættu fara út að hlaupa.

„Þeir eru mjög leiðir yfir þessu og finnst þetta mjög leiðinlegt,“ sagði Davíð Smári í samtali við RÚV. Þá tók hann fram að leikmennirnir hafi ekki hitt neina aðra leikmenn félagsins og ekki hafi verið æfing hjá liðinu í gær.

Kórdrengir eru nýliðar í Lengjudeildinni eftir að hafa farið upp um þrjár deildir á þremur árum. Þeir Connor Simpson, Nathan Dale og Conner Rennison eru ekki komnir með leikheimild samkvæmt vef KSÍ. 

Má reikna með að hún verði komin fyrir fyrstu umferð Lengjudeildarinnar þegar Kórdrengir heimsækja Aftureldingu þann 7. maí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×