Erlent

Lög­reglu­stjórinn segir af sér í kjöl­far drápsins á Daunte Wrig­ht

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Myndefni úr búkmyndavél lögreglukonunnar sýnir þegar hún skaut Wright með skammbyssu.
Myndefni úr búkmyndavél lögreglukonunnar sýnir þegar hún skaut Wright með skammbyssu.

Lögreglustjórinn í borginni Brooklyn Center í Minnesota-ríki, Tim Gannon, hefur sagt upp störfum. Lögreglan í borginni hefur verið harðlega gagnrýnd eftir að lögreglukona skaut svartan ökumann, Daunte Wright, til bana.

Í kjölfar drápsins á Wright þann 11. apríl síðastliðinn hefur mótmælaalda risið í Brooklyn Center og víðar. Á blaðamannafundi í gær sagði Gannon að hann teldi að um mistök hjá lögreglukonunni, Kim Potter, hafi verið að ræða. Hún hafi ætlað að teygja sig eftir rafbyssu en tekið í misgripum upp skammbyssu sína og skotið Wright til bana. Potter hefur einnig látið af störfum hjá lögreglunni í borginni.

Borgarstjóri Brooklyn Center, Mike Elliot, hefur þegar fundið eftirmann Gannons, Tony Gruenig. Samkvæmt breska ríkisútvarpinu hefur Gruenig 19 ára starfsreynslu innan lögreglunnar.

Rannsókn á dauða Dauntes Wright hefur verið sett af stað en samfélagið í Minnesota er á nálum þessa dagana þar sem réttarhöldin yfir Derek Chauvin standa yfir í Minneapolis.

Fyrrverandi lögregluþjónninn Chauvin er sakaður um að hafa myrt hinn svarta George Floyd í fyrra. Dauði Floyds varð kveikjan að umfangsmiklum mótmælum gegn kerfisbundnum rasisma og lögregluofbeldi víðs vegar um heiminn.


Tengdar fréttir

Ætlaði að beita rafbyssu: „Hver þremillinn. Ég skaut hann“

Til átaka kom milli mótmælenda og lögreglu í úthverfi Minneapolis í Bandaríkjunum, annað kvöldið í röð eftir að svartur maður var skotinn til bana af lögregluþjóni. Umræddur lögregluþjónn ætlaði að taka upp rafbyssu sína en tók fyrir mistök upp alvöru byssu.

Eldfimt ástand í Minnesota

Útgöngubanni var aflétt í morgun í borginni Brooklyn Center í Minnesota í Bandaríkjunum eftir að lögreglu og mótmælendum lenti saman í nótt. Reiði ríkir á meðal borgarbúa vegna ásakana um að lögregla hafi skotið svartan karlmann til bana.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×