Erlent

Ætlaði að beita rafbyssu: „Hver þremillinn. Ég skaut hann“

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónninn sagðist ætla að beita rafbyssu gegn Wright en hélt þó á skammbyssu.
Lögregluþjónninn sagðist ætla að beita rafbyssu gegn Wright en hélt þó á skammbyssu.

Til átaka kom milli mótmælenda og lögreglu í úthverfi Minneapolis í Bandaríkjunum, annað kvöldið í röð eftir að svartur maður var skotinn til bana af lögregluþjóni. Umræddur lögregluþjónn ætlaði að taka upp rafbyssu sína en tók fyrir mistök upp alvöru byssu.

Lögreglustjóri Brooklyn Center, lýsti atvikinu þar sem hinn tuttugu ára gamli Daunte Wright var skotinn til bana sem slysaskoti. Hann hafði verið stöðvaður af lögregluþjónum fyrir umferðalagabrot en reyndi að komast undan.

Wright var eftirlýstur fyrir að hafa ekki mætt fyrir dómara vegna dómsmáls.

Lögreglan birti í gær myndband úr vestismyndavél konunnar sem skaut Wright. Hún heitir Kimberly A. Potter, er 48 ára gömul og hefur verið í lögreglunni í 26 ár. Hún var sett í leyfi eftir atvikið, samkvæmt frétt héraðsmiðilsins StarTribune.

Á myndbandinu má sjá að þegar Wright reyndi að komast aftur inn í bíl sinn hótaði hún að skjóta hann með rafbyssu, jafnvel þó hún héldi á venjulegri skammbyssu.

Síðan hleypti hún af einu skoti og Wright keyrði á brott. Þá heyrðist Potter lýsa yfir furðu sinni og virtist hún hissa á því að hún hefði skotið Wright, sem dó skömmu seinna.

„Hver þremillinn. Ég skaut hann,“ sagði hún.

AP fréttaveitan hefur eftir Mike Elliott, borgarstjóra Broooklyn Center, að atvikið sé einkar sorglegt og að réttast væri að reka konuna úr lögreglunni.

Borgarráð Brooklyn Center hefur veitt Elliott yfirráð yfir lögreglunni og segir í frétt StarTribune að hann muni taka ákvörðun seinna í dag um það hvort hann ætli að reka Tim Gannon, lögreglustjóra.

Elliott, sem er fyrsti svarti borgarstjóri Brooklyn Center, sagði við mótmælendur í gær að hann og Keith Ellison, fyrsti svarti dómsmálaráðherra Minnesota, myndu ganga úr skugga að réttlætið næði fram að ganga.

Sjá einnig: Eldfimt ástand í Minnesota

Hér að neðan má sjá myndefni AP fréttaveitunnar frá mótmælunum og átökunum í gærkvöldi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×