Erlent

Kanna hvort þingmaður hafi sýnt nektarmyndir í þingsal

Kjartan Kjartansson skrifar
Matt Gaetz, þingmaður Repúblikanaflokksins frá Flórída. Hann bar af sér sakir á viðburði „Kvenna fyrir Bandaríkin fyrst“ í Doral-klúbbi Trump fyrrverandi forseta í gær.
Matt Gaetz, þingmaður Repúblikanaflokksins frá Flórída. Hann bar af sér sakir á viðburði „Kvenna fyrir Bandaríkin fyrst“ í Doral-klúbbi Trump fyrrverandi forseta í gær. AP/Marta Lavandier

Siðanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings kannar nú ásakanir um að Matt Gaetz, þingmaður Repúblikanaflokksins frá Flórída, hafi sýnt myndir af nöktum konum í þingsal, framið kynferðisbrot og neytt ólöglegra lyfja. Dómsmálaráðuneytið rannsakar einnig hvort að Gaetz hafi greitt fyrir kynlíf og stundað mansal.

Gaetz, sem er 38 ára gamall, er á meðal heitustu stuðningsmanna Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Nýlega var greint frá því að dómsmálaráðuneytið hefði opnað rannsókn á því hvort að Gaetz hafi átt í kynferðislegu sambandi við sautján ára gamla stúlku og gerst sekur um mansal með því að hafa greitt henni til að ferðast með sér á milli ríkja í Bandaríkjunum.

Joel Greenberg, vinur Gaetz frá Flórída, hefur verið ákærður fyrir mansal á stúlku undir lögaldri. Vísbendingar eru um að hann semji nú við saksóknara um að veita þeim upplýsingar í rannsókninni á þingmanninum. Yfirvöld grunar að Greenberg hafi séð Gaetz fyrir ungum konum.

Gaetz er sagður hafa stært sig af því að hann hafi hitt konur í gegnum Greenberg og jafnvel sýnt myndir af nöktum eða berbrjósta konum fólki sem hann hitti í samkvæmum. CNN-fréttastöðin hafði eftir heimildarmanni að Gaetz hefði sýnt sér slíka mynd í þingsal fulltrúadeildarinnar í Washington-borg.

Washington Post segir að rannsókn siðanefndar fulltrúadeildarinnar beinist ekki aðeins að meintu kynferðislegu misferli Gaetz heldur einnig ásökunum um að hann hafi msibeitt opinberum gagnagrunni með persónuupplýsingum, notað kosningasjóði í persónulega þágu og þegið gjafir sem þingmenn mega ekki þiggja. Greenberg er meðal annars sakaður um að hafa sem skattinnheimtustjóri í Seminole-sýslu nýtt sér gagnagrunn til að framleiða fölsuð skilríki fyrir ungar konur sem hann átti í kynferðislegu sambandi við.

Siðanefndin getur ávítað þingmenn, sektað þá og jafnvel vísað af þingi. Rannsóknir hennar taka yfirleitt fleiri mánuði og lýkur þeim að jafnaði með skýrslu, að sögn AP-fréttastofunnar.

Sjálfur heldur Gaetz, sem hefur ekki verið ákærður fyrir glæp, því fram að rannsóknirnar séu einhvers konar ofsóknir gegn sér vegna pólitíska skoðana sinna. Rannsóknin hófst þó í tíð Trump forseta.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.