Erlent

Blóðtappar skulu skráðir sem „afar sjaldgæf aukaverkun“ af AstraZeneca

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Heilbrigðisstarfsfólk bólusett með bóluefni Astrazeneca.
Heilbrigðisstarfsfólk bólusett með bóluefni Astrazeneca. Vísir/Vilhelm

Evrópska lyfjastofnunin (EMA) telur að möguleg tengsl séu á milli sjaldgæfra tilfella blóðtappa og bólusetningar með bóluefni AstraZeneca gegn kórónuveirunni. Slíkir blóðtappar skuli nú skráðir sem afar sjaldgæf aukaverkun af efninu. Ávinningur af notkun efnisins vegi þó áfram þyngra en áhættan af aukaverkunum þess.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá sérfræðinganefnd EMA sem birt var nú síðdegis.  

Notkun bóluefnis AstraZeneca var hætt tímabundið hér á landi og í fleiri Evrópuríkjum í mars eftir að tilkynnt var um nokkur tilfelli blóðtappa í kjölfar bólusetningar. Bóluefnið var aftur tekið í notkun á Íslandi 25. mars en þá aðeins fyrir fólk eldra en 70 ára. 

Flest tilvikin í konum yngri en 60 ára

Í tilkynningu frá EMA segir að öll fyrirliggjandi gögn hafi verið tekin með í reikninginn við ákvörðun nefndarinnar í dag. Þá beinir stofnunin því til heilbrigðisstarfsfólks og þeirra sem fá bóluefnið að vera meðvitaðir um áhættu á blóðtappa.

Flest tilfellin hafi greinst í konum yngri en 60 ára innan við tveimur vikum frá bólusetningu. Ekki hafa þó enn verið staðfestir sérstakir áhættuþættir fyrir umrædd tilvik sjaldgæfra blóðtappa.

Ávinningurinn trompi áhættuna

Nefndin leggur þó áherslu á að þessi tilvik séu ákaflega sjaldgæf. Heildarávinningur af notkun bóluefnis AstraZeneca gegn Covid-sýkingu vegi þyngra en áhætta af mögulegum aukaverkunum.

Sérfræðinganefndin fundaði síðast 31. mars vegna blóðtappanna. Þá hafði ekki verið sýnt fram á orsakasamhengi milli notkunar bóluefnisins og tilvikanna, „en það er mögulegt og frekari greining fer nú fram,“ sagði í tilkynningu Lyfjastofnunar vegna málsins 31. mars.

Fram kom í tilkynningu EMA 18. mars að stofnunin væri þeirrar skoðunar að ávinningur af notkun bóluefnisins vegi þyngra en áhættan af hugsanlegum aukaverkunum þess.

Fréttin verður uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×