Erlent

Um helmingi meiri kol­tví­sýringur í lofti en fyrir iðn­byltinguna

Kjartan Kjartansson skrifar
Kolaorkuver í Nottinghamskíri á Englandi. Menn hafa dælt milljörðum tonna af koltvísýringi út í lofthjúpinn frá því að iðnbyltingin hófst.
Kolaorkuver í Nottinghamskíri á Englandi. Menn hafa dælt milljörðum tonna af koltvísýringi út í lofthjúpinn frá því að iðnbyltingin hófst. Vísir/Getty

Styrkur koltvísýrings í lofthjúpi jarðar var um helmingi meiri en áður en iðnbyltingin hófst í nokkra daga á fyrstu mánuðum þessa árs. Búist er við því að árið 2021 verði það fyrsta þar sem styrkurinn verður svo hár í meira en nokkra daga.

Stórfelldur bruni mannkynsins á jarðefnaeldsneyti, kolum, olíu og gasi, frá því að iðnbyltingin hófst á 18. öld hefur losað fleiri milljarða tonna af gróðurhúsalofttegundinni koltvísýringi út í andrúmsloft jarðar. Þessi hraðvaxandi styrkur koltvísýrings veldur hlýnun við yfirborð jarðar, hlýnun sem gæti náð allt frá tveimur til fimm gráðum á þessari öld.

Nýlegar mælingar á Mauna Loa-athuganastöðinni á Havaí í Kyrrahafi sýndu styrk koltvísýrings upp á 417 hluta af milljón (ppm) nokkra daga í febrúar og mars. Það er um helmingi meiri styrkur en meðaltal áranna 1750 til 1800. Veðurvitni eins og ískjarnar benda til þess að þá hafi styrkurinn verið um 278 ppm að meðaltali.

Richard Betts, yfirmaður loftslagsáhrifarannsókna við Hadley-miðstöð bresku veðurstofunnar og prófessor við Háskólann í Exeter, segir nú sé svo komið að árið í ár verði líklega það fyrsta í sögunni þar sem styrkur koltvísýrings er helmingi meiri en fyrir iðnbyltingu lengur en í nokkra daga í senn.

200 ár í fjórðungsaukningu en aðeins 35 ár í helmingsaukningu

Í grein sem Betts ritar á loftslagsvefinn Carbon Brief lýsir hann hversu mikið hefur hert á aukningu koltvísýrings í lofthjúpnum undanfarin ár. Það tók menn tvö hundruð ár að auka styrkinn um fjórðung árið 1986. Aldarfjórðungi síðar, árið 2011, nam aukningin fjörutíu prósentum. Nú áratug síðar hefur styrkurinn aukist enn meira og er að vera viðvarandi yfir fimmtíu prósent meiri en fyrir iðnbyltingu.

Styrkurinn náði fyrst 417 ppm nokkra daga í maí í fyrra, rétt um það leyti sem styrkur koltvísýrings er í hámarki eftir norðurhvelsveturinn og gróður byrjar að binda hann yfir sumarmánuðina. Þar sem styrkurinn nær hámarki sínu yfir árið í maí segir Betts að styrkurinn verði líklega yfir 417ppm næstu þrjá til fjóra mánuðina.

Breska veðurstofan spáir því nú að hæst nái mánaðarlegt meðaltal styrks koltvísýrings 419,5ppm í maí. Betts telur að frá síðari hluta júlí falli styrkurinn líklega undir 417ppm tímabundið en nálgist þær hæðir aftur undir lok ársins.

Meðaltal ársins er talið verða 416,3ppm. Miðað við 2,5ppm árlega aukningu sé ljóst að næsta ár verði það versta þar sem ársmeðaltal styrks koltvísýrings verði helmingi hærra en fyrir iðnbyltingu.

Vísindamenn telja að styrkur koltvísýrings hafi ekki verið hærri í um þrjár milljónir ára, áður en mannskepnan var til.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×