Enski boltinn

Bruce ýtti leikmanni Newcastle sem kallaði hann heigul

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steve Bruce og Matt Ritchie voru ekki svona kátir á þriðjudaginn.
Steve Bruce og Matt Ritchie voru ekki svona kátir á þriðjudaginn. getty/Alex Dodd

Steve Bruce og Matt Ritchie lenti saman á æfingu Newcastle United þar sem Ritchie kallaði Bruce heigul.

Ritchie var ekki sáttur með að Bruce hefði kennt sér um jöfnunarmark Wolves gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Bruce vildi meina að Ritchie hefði ekki komið taktískum skilaboðum áleiðis eins og hann átti að gera þegar hann kom inn á sem varamaður.

Ritchie hringdi í Bruce eftir leikinn en stjórinn var ekki tilbúinn að ræða við hann þá og vildi frekar gera það á æfingasvæðinu.

Sagðist ekki ætla að tala við heigulinn

Steve Agnew, aðstoðarmaður Bruces, var sendur út á æfingasvæði Newcastle á þriðjudaginn til að boða Ritchie á skrifstofu stjórans.

Ritchie hafði engan áhuga á því og sagðist ekki ætla að tala við heigulinn Bruce aftur. Bruce rauk þá út á æfingasvæðið og ýtti við Ritchie með öxlinni.

Bruce var ósáttur með að Ritchie hafi kallaði sig heigul eftir allt sem hann hefði gert fyrir hann. Ritchie svaraði með því að segja að Bruce hefði ekkert gert fyrir sig og hann væri búinn að fá sig fullsaddann af honum.

Þreyttir á Bruce

Samkvæmt heimildum Daily Mail standa leikmenn Newcastle við bakið á Ritchie en þeir ku vera orðnir frekar þreyttir á Bruce, sérstaklega því hversu oft hann kennir þeim um í fjölmiðlum í stað þess að taka sjálfur ábyrgð á slæmu gengi liðsins.

Newcastle er í 17. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 23 stig, aðeins þremur stigum frá fallsæti. Næsti leikur Newcastle er gegn West Brom, sem er í 19. sæti deildarinnar, í hádeginu á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×