Enski boltinn

Liverpool og United hafa áhuga á staðgengli Bruno Fernandes

Sindri Sverrisson skrifar
Pedro Goncalves hefur farið á kostum í vetur.
Pedro Goncalves hefur farið á kostum í vetur. Getty/ Jose Manuel Alvarez

Þó að Bruno Fernandes hafi frá fyrsta degi orðið lykilmaður hjá Manchester United við komuna frá Sporting Lissabon hefur portúgalska félagið spjarað sig afar vel án hans. Staðgengill hans hefur raunar komið að fleiri mörkum en Fernandes hafði gert á síðustu leiktíð.

BBC fjallar um staðgengilinn , hinn 22 ára gamla Pedero Goncalves, í ítarlegri grein í dag þar sem þess er getið að þessi fyrrverandi leikmaður Wolves sé nú í sigti United og Liverpool.

Goncalves hefur skorað 14 mörk það sem af er leiktíð í Portúgal og lagt upp tvö, í 15 deildarleikjum. Fernandes hafði skorað átta mörk og lagt upp sjö í 16 leikjum í fyrra, áður en hann fór til United fyrir 47 milljónir punda. En það sem meira er þá hafa öll mörk Goncalves komið úr opnum leik.

Goncalves er líkt og Fernandes portúgalskur, sóknarsinnaður miðjumaður. Hann þykir ekki alveg eins fjölhæfur leikmaður en virðist svo sannarlega kunna þá list að búa til mörk.

Með Goncalves fremstan í flokki er Sporting með níu stiga forskot á toppi efstu deildarinnar í Portúgal. Nítján ár eru liðin síðan að liðið varð síðast portúgalskur meistari en með því að fá Goncalves frá Famalicao í ágúst hefur leiðin legið hratt upp á við.

Spilaði bara einn leik fyrir Úlfana

Eins og fyrr segir gæti Goncalves fylgt á eftir Fernandes til Englands en þar hefur hann búið áður. Eftir að hafa verið hjá Valencia á Spáni árin 2015-2017 fylgdi Pote, eins og hann er kallaður, á eftir Nuno Espirito Santo til Wolves.

Hjá Úlfunum fékk Goncalves hins vegar varla neitt tækifæri. Eini leikur hans með aðalliðinu var þegar hann kom inn á sem varamaður í 2-0 sigri á Sheffield Wednesday í deildabikarnum, í ágúst 2018.

Í samningi Goncalves við Sporting er hann með klásúlu sem gerir hann falan fyrir 60 miljónir evra. Það er talsvert yfir 6,5 milljónum evra sem Sporting greiddi fyrir hann síðasta sumar, en hugsanlega upphæð sem félög verða reiðubúin að greiða næsta sumar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.