Erlent

Beita rússneska embættismenn refsiaðgerðum vegna eitrunarinnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Alexei Navalní í dómsal í Moskvu í síðasta mánuði.
Alexei Navalní í dómsal í Moskvu í síðasta mánuði. AP/Alexander Zemlianichenko

Ríkisstjórn Joes Biden, forseta Bandaríkjanna, opinberaði í dag refsiaðgerðir gegn rússneskum embættismönnum og fyrirtækjum vegna eitrunar stjórnarandstæðingsins, Alexei Navalní. Meðal annars beinast aðgerðirnar gegn háttsettum embættismönnum í ríkisstjórn Vladímírs Pútíns, forseta Rússlands.

Í samtali við blaðamenn í dag sögðu bandarískir embættismenn að leyniþjónustusamfélag Bandaríkjanna hefði komist að þeirri niðurstöðu að Leyniþjónusta Rússlands, FSB, bæri ábyrgð á því þegar eitrað var fyrir Navalní í Rússlandi síðasta ágúst.

Búist er við að nöfn aðilanna og fyrirtækjanna verði opinberuð í dag.

Aðgerðirnar sem kynntar voru í dag eru einnig fyrsta skrefið af nokkrum sem ríkisstjórn Bidens mun taka gegn ráðamönnum í Rússlandi á næstunni. Embættismennirnir sögðu í áðurnefndu samtali að ríkisstjórn Bidens myndi nálgast Rússlands með allt öðrum hætti en gert hefði verið í forsetatíð Donalds Trump, fyrrverandi forseta.

Fyrr í dag hafði Evrópusambandið beitt fjóra rússneska embættismenn refsiaðgerðum vegna eitrunarinnar og fangelsunar Navalnís. ESB hafði áður beitt háttsetta meðlimi ríkisstjórnar Rússlands refsiaðgerðum vegna eitrunarinnar og ríkisstjórn Trumps neitaði að taka þátt í því.

Aðgerðir Bandaríkjamanna beinast gegn sjö einstaklingum í Rússlandi og eru þær sagðar í takt við fyrri aðgerðir ESB.

Þeir rússnesku aðilar sem hafa verið beittir refsiaðgerðum munu ekki fá að ferðast til Bandaríkjanna og aðildarríkja Evrópusambandsins. Þá verða eigur þeirra þar frystar og þeir hafa ekki aðgang að bankaþjónustu þar, svo eitthvað sé nefnt.

Bandaríkjamenn kynntu einnig í dag útflutningsbann til Rússlands á efnum sem notuð eru við framleiðslu efnavopna.

Navalní, sem hefur verið áberandi í stjórnarandstöðu í Rússlandi undanfarin ár, veiktist í flugvél yfir Síberíu þann 20. ágúst. Flugvélinni var lent og hann var fluttur á sjúkrahús í Omsk.

Navalní féll í dá féll í dá og grunaði aðstandendur hans strax að eitrað hefði verið fyrir honum. Nokkrum dögum síðar var Navalní fluttur á sjúkrahús í Berlín. Vísindamenn í Þýskalandi, Svíþjóð og Frakklandi, auk vísindamanna Efnavopnastofnunarinnar, hafa staðfest að eitrað var fyrir Navalní með novichok, eitrið sem þróað var í Sovétríkjunum.

Sjá einnig: Útsendarar FSB sagðir hafa eitrað fyrir Navalní

Þegar hann sneri aftur til Rússlands í desember var hann handtekinn og síðar dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa brotið gegn skilorði með því að fara til Rússlands.


Tengdar fréttir

Naval­ní fluttur í fanga­búðir: „Þær eru hræði­legar“

Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní hefur verið fluttur í fangabúðir rétt fyrir utan Moskvu þar sem hann á að sitja af sér tveggja og hálfs árs fangelsisdóm. Navalní var fluttur úr varðhaldi í fangelsinu í Moskvu á fimmtudag og var aðstandendum hans ekki gert viðvart um tilfærslu hans.

Rússneskur ritstjóri í fangelsi fyrir tíst

Sergei Smirnov, ritstjóri sjálfstæða miðilsins Mediazona í Rússlandi, var í gær dæmdur í 25 daga fangelsi vegna tísts. Smirnov endurtísti tísti annars manns um að hann væri líkur söngvara hljómsveitarinnar Tarakany Dmitry Spirin.

Segja gagnrýni vesturlanda vera móðursýki

Yfirvöld í Rússlandi hafa hafnað gagnrýni frá vesturlöndunum vegna fangelsisdóms stjórnarandstæðingsins Alexei Navalní og segja hana vera móðursýki. Navalní var í gær dæmdur til tveggja ára og átta mánaða vistar í fanganýlendu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×