Erlent

Sendi teikningar af þinghúsi Þýskalands til rússnesks njósnara

Samúel Karl Ólason skrifar
Maðurinn er sagður hafa unnið við viðhald í þinghúsinu.
Maðurinn er sagður hafa unnið við viðhald í þinghúsinu. EPA/Flip Singer

Þýskir alríkissaksóknarar hafa ákært þýskan ríkisborgara fyrir að hafa útvegað rússneskum manni, sem grunaður er um að vera njósnari, teikningar og önnur gögn um þinghús Þýskalands.

Samkvæmt tilkynningu frá saksóknurum, sem DW vísar í heitir maðurinn Jens F. og er 55 ára gamall. Hann vann við viðhald á rafmagnsbúnaði í neðri deild þýska þingsins, sem kallast Bundestag. Hann notaði það starf sitt til að koma höndum yfir gögn um þinghúsið og koma þeim til starfsmanns sendiráðs Rússlands í Berlín.

Sá er talinn vera njósnari sem starfar fyrir leyniþjónustu herafla Rússlands, GRU.

Það sem meira er, þá er Jens sagður hafa byrjað að veita Rússum þessar upplýsingar að eigin frumkvæði. Hann sendi fyrst PFG skrá á usb-drifi með teikningum af hluta þinghússins til rússnesks njósnara á ákveðnu tímabili árið 2017.

Rússar hafa áður verið sakaðir um njósnir á þýska þinginu. Í fyrra sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, að staðfest væri að útsendarar GRU hefðu brotist inn í tölvukerfi hennar árið 2015.

Árið 2016 sakaði leyniþjónusta Þýskalands opinberlega hóp hakkara, sem sagður er starfa fyrir rússnesk stjórnvöld, um tölvuárásina. Hópurinn, sem ýmist gengur undir nafninu Fancy Bear eða APT28, er einnig talinn bera ábyrgð á tölvuárásum í tengslum við bandarísku forsetakosningarnar 2016.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×