Erlent

Segist búa yfir sönnun um að Rússar hafi hakkað skrif­stofu hennar

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel Þýskalandskanslari í þýska þinginu í gær.
Angela Merkel Þýskalandskanslari í þýska þinginu í gær. Getty

Angela Merkel Þýskalandskanslari hefur staðfest að fulltrúar leyniþjónustu rússneska hersins (GRU) hafi brotist inn í tölvukerfi hennar árið 2015.

Merkel var spurð út í frétt þýsks tímarits um að GRU hafi komist yfir tölvupósta frá kjördæmisskrifstofu hennar í tölvuárás árið 2015, í þýska þinginu í gær.

Merkel sagði málið „valda sér sárauka“ og lýsti tölvuárásinni sem „svívirðilegri“. Merkel sagðist engu að síður halda áfram að „leggja sig alla fram við að tryggja góð samskipti við Rússland“.

Rússar hafna því að bera ábyrgð

Tímaritið Spiegel segir frá árásinni þar sem fram kemur að ráðist hafi verið á tölvur í þýska þinginu. Einnig var ráðist á tölvukerfi ríkisstjórnar landsins árið 2018 og þá bárust óstaðfestar fréttir um að rússneskir hakkarar hafi þar einnig borið ábyrgð.

Rússneska ríkisstjórnin hefur hafnað því að hafa staðið fyrir tölvuárásum á þýska þingið.

Spiegel gefur í fréttinni ekki upp heimildarmenn sína, en þar eru hakkararnir sagðir hafa komist yfir tölvupósta úr tveimur tölvupóstsinnhólfum á skrifstofu Merkel. Eru póstarnir sagðir hafa verið frá 2012 til 2015.

Skýr sönnunargögn

Árið 2016 sakaði leyniþjónusta Þýskalands opinberlega hóp hakkara, sem sagður er starfa fyrir rússnesk stjórnvöld, um tölvuárásina. Hópurinn, sem ýmist gengur undir nafninu Fancy Bear eða APT28, er einnig talinn bera ábyrgð á tölvuárásum í tengslum við bandarísku forsetakosningarnar 2016.

„Ég reyni á hverjum degi að koma á betri samskiptum við Rússa. Hins vegar eru svo skýr sönnunargögn um að rússneskir aðilar standi að þessu,“ á Merkel að hafa sagt, að því er fram kemur í frétt BBC.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×