Enski boltinn

Sky segir mikinn áhuga Man. Utd ekki duga til að Coman fari í sumar

Sindri Sverrisson skrifar
Kingsley Coman vill vera hjá Bayern München enn um sinn.
Kingsley Coman vill vera hjá Bayern München enn um sinn. Getty/ M. Donato

Manchester United er tilbúið að greiða Kingsley Coman 260.000 pund á viku, jafnvirði tæplega 50 milljóna króna, til að fá hann frá Bayern München en franski landsliðsmaðurinn telur að hann verði áfram hjá Bayern í nánustu framtíð.

Þetta segir í frétt Sky Sports þar sem fullyrt er að Coman ætli að halda kyrru fyrir hjá Bayern í sumar. 

Coman er einn þeirra leikmanna sem forráðamenn Bayern leggja áherslu á að gera nýjan samning við í stað þess að lenda í sömu stöðu og með David Alaba, sem fer frítt í sumar.

Coman er með samning við Bayern sem gildir til næstu tveggja ára. Samkvæmt þýskum miðlum er hann aðeins á miðlungslaunum miðað við samherja sína í Bayern og vill fá úr því bætt, en Sky Sports segir engar viðræður hafa átt sér stað á milli Bayern og Coman síðustu vikur.

Þýska blaðið Bild segir að Bayern óttist að United muni freista Coman með tvöfalt hærri launum en hann sé með núna hjá heims- og Evrópumeisturunum. Langt sé því í land í samningaviðræðum milli hans og Bayern.

Coman er 24 ára gamall og hefur skorað þrjú mörk í þýsku 1. deildinni í vetur, og þrjú mörk í Meistaradeild Evrópu. Hann skoraði sigurmarkið í úrslitaleiknum gegn PSG í ágúst í fyrra.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.