Erlent

Gátu ekki flogið í dag og slæm veður­spá næstu daga

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ali Sadpara og Johns Snorra Sigurjónssonar er enn saknað. 
Ali Sadpara og Johns Snorra Sigurjónssonar er enn saknað.  Facebook

Ekki var unnt að fljúga upp í hlíðar fjallsins K2 til leitar að John Snorra Sigurjónssyni og samferðamönnum hans í dag vegna veðurs. Slæm veðurspá er á svæðinu næstu daga, sem gæti gert leitarmönnum erfitt fyrir.

Johns Snorra og félaga hans, þeirra Muhammad Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr, hefur verið saknað á K2 í um fjóra sólarhringa. 

Ashgar Ali Parik, eigandi ferðaskrifstofunnar sem skipulagði ferð Johns Snorra og nú einnig leitina, segir í samskiptum við fréttastofu að leitarþyrlur hafi ekki tekið á loft í dag vegna veðurs. Starfsmenn á vegum ferðaskrifstofunnar verði áfram í grunnbúðunum í fjóra daga til viðbótar. 

Stjórnvöld hyggist senda fleiri til leitarinnar á jörðu og þá verði reynt að fljúga C130 Herkúles-flugvél frá pakistanska hernum, sem kemst hærra en þyrlur, yfir svæðið.

Ferðamálaráðherra svæðisins sagði á Twitter í dag að leitinni hefði verið frestað tímabundið vegna veðurs. Þá sé veðurspáin næstu vikuna slæm. Leitinni verði hins vegar haldið áfram ef veðurgluggi opnast. 

Ráðherrann greindi einnig frá því að Imtiaz Hussain og Akbar Ali, fjallagarpar og frændur Ali Sadpara, hafi þurft að fresta för sinni upp fjallið til leitar vegna veðurs. Öll úrræði séu nýtt til leitarinnar í samráði við pakistanska herinn. Líkur á því að þremenningarnir séu á lífi fari þó þverrandi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.