Erlent

AztraZene­ca veiti tak­markaðri vernd gegn suður-afríska af­brigðinu

Sylvía Hall skrifar
Bretland er fyrsta landið í heiminum til þess að hefja bólusetningar með bóluefni AstraZeneca.
Bretland er fyrsta landið í heiminum til þess að hefja bólusetningar með bóluefni AstraZeneca. AP/Gareth Fuller

Bráðabirgðaniðurstöður úr rannsókn á bóluefni AstraZeneca benda til þess að bóluefnið veiti minni vernd gegn hinu svokallaða suður-afríska afbrigði veirunnar. Yfir tvö þúsund manns tóku þátt í rannsókninni sem verður birt á morgun.

Financial Times greindi frá þessum niðurstöðum og fengust þær staðfestar hjá AstraZeneca, sem fullyrðir þó að bóluefnið veiti ríka vernd gegn alvarlegri veikindum af völdum sjúkdómsins þó það hafi síður áhrif á þá einstaklinga sem veikjast minna. Rannsóknin hafi þó að mestu farið fram á ungum og heilbrigðum einstaklingum, og því óvíst hvort það virki jafn vel á þá sem eldri eru.

Fyrsta sending af bóluefni AstraZeneca kom til landsins gær. 1.200 skammtar bárust af efninu sem ætti að duga fyrir 600 manns. Bóluefnið fékk markaðsleyfi í Evrópu í lok janúar. 

Suður-afríska afbrigðið hefur skotið upp kollinum víða og hafa yfir hundrað tilfelli verið staðfest í Bretlandi. Hið svokallaða breska afbrigði er þó enn ráðandi þar í landi, en bóluefnið er sagt virka vel gegn því afbrigði veirunnar.

Oxford-háskóli, sem hefur þróað bóluefnið í samstarfi við AstraZeneca, vinnur nú að því að laga framleiðsluferla að mögulegum breytingum á samsetningu bóluefnisins ef þörf krefur.

Greint var frá því í janúar að bóluefni Pfizer og BioNTech við Covid-19 virki vel gegn nýjum afbrigðum kórónuveirunnar, bæði því breska og suður-afríska.


Tengdar fréttir

Bóluefnið frá AstraZeneca aðeins til yngri en 55 ára í Belgíu

Eftirlitsaðilar í Belgíu hafa mælt með því að Covid-19 bóluefnið frá AstraZeneca verði aðeins gefið einstaklingum undir 55 ára, að svo stöddu. Heilbrigðisráðherrann belgíski segir að verið sé að yfirfara bólusetningaráætlun landsins, þar sem stjórnvöld höfðu reitt sig á umrætt bóluefni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.