Erlent

Rann­saka virkni þess að gefa sitt­hvort bólu­efnið í fyrri og seinni skammt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá bólusetningu í Blackpool í Englandi en leitað er að meira en 800 sjálfboðaliðum í landinu yfir fimmtugu sem ekki hafa fengið bólusetningu til að taka þátt í rannsókninni.
Frá bólusetningu í Blackpool í Englandi en leitað er að meira en 800 sjálfboðaliðum í landinu yfir fimmtugu sem ekki hafa fengið bólusetningu til að taka þátt í rannsókninni. Getty/Peter Byrne WPA Poo

Vísindamenn við Oxford-háskóla í Bretlandi ætla að rannsaka hvort það gefist eins vel að gefa fólki sitthvort bóluefnið gegn Covid-19 í fyrri og seinni sprautu bólusetningar í stað þess að gefa sama bóluefnið tvisvar líkt og nú er gert.

Leiði rannsóknin í ljós að það gefi eins góða virkni að gefa sitthvort bóluefnið í fyrri og seinni skammt er vonast til að það auki sveigjanleika í bólusetningum gegn Covid-19. Til dæmis ef truflun verður í framleiðslu á einu bóluefni sem fólk hefur fengið í fyrri sprautu þá væri hægt að gefa fólki annað bóluefni í seinni sprautu.

Auk þess segja vísindamenn mögulegt að þessi nálgun í bólusetningu veiti meiri vörn gegn Covid-19 en það að gefa sama bóluefnið tvisvar.

Leitað er að meira en 800 sjálfboðaliðum í Englandi, fimmtíu ára og eldri sem ekki hefur fengið bólusetningu, til þess að taka þátt í rannsókninni. Fólk mun fá bóluefni AstraZeneca og svo bóluefni Pfizer, eða öfugt, með fjögurra eða tólf vikna millibili.

Öðrum bóluefnum verður svo mögulega bætt við á síðari stigum rannsóknarinnar eftir því sem þau verða samþykkt af eftirlitsaðilum.

Að því er fram kemur í frétt BBC um rannsóknina hafa vísindamenn góða ástæðu til þess ætla að það að blanda saman bóluefnum í bólusetningu með þessum hætti gefi góða raun. Það hafi til að mynda reynst vel í bólusetningum gegn ebólu.

Auk þess að kanna virkni þess að nota sitthvort bóluefnið munu vísindamenn rannsaka áhrif bólusetningar á mismunandi stofna kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 og áhrif þess að gefa seinni sprautuna eftir fjórar vikur annars vegar og tólf vikur hins vegar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.