Íslenski boltinn

Vil­hjálmur Kári tekur við Ís­lands­meisturunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vilhjálmur Kári er nýr þjálfari Íslandsmeistara Breiðabliks.
Vilhjálmur Kári er nýr þjálfari Íslandsmeistara Breiðabliks. Breiðablik

Vilhjálmur Kári Haraldsson hefur tekið við Íslandsmeisturum Breiðabliks í knattspyrnu. Tekur hann við starfinu af Þorsteini Halldórssyni sem tók nýverið við íslenska kvennalandsliðinu.

Þetta kom fram á vef Breiðabliks nú í kvöld. Þess má til gamans geta að Vilhjálmur er faðir Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur, landsliðskonu og nú leikmanns Bayern München.

Vilhjálmur Kári verður með öflugt teymi með sér á hliðarlínunni en Ólafur Pétursson heldur áfram sem markmannsþjálfari ásamt því að vera aðstoðarþjálfari liðsins. Þá verður Aron Már Björnsson styrktarþjálfari Íslandsmeistaranna og Úlfar Hinriksson gegnir hlutverki tæknilegs ráðgjafa. Þeir hafa allir verið í teyminu undanfarin ár.

Vilhjálmur Kári þjálfaði Augnablik í Lengjudeild kvenna síðasta sumar en sagði starfi sínu lausu að loknu tímabili. Í hans stað kemur Kristrún Lilja Daðadóttir. Hún er öllum hnútum kunnug í Kópavogi þar sem hún lék á sínum tíma 225 leiki fyrir Blika og skoraði alls 113 mörk frá 1986 til 2002.

„Kristrún hefur þjálfað í yfir 20 ár bæði í yngri flokkum og í meistaraflokki hjá Breiðablik, Þrótti og KR. Auk þess hefur hún þjálfað U17 ára landslið Íslands,“ segir einnig á vef Blika.

Vilhjálmur Kári hefur alls 25 ára reynslu af þjálfun karla og kvenna, bæði hjá FH og Breiðabliki. Einnig hefur hann starfað fyrir Knattspyrnusamband Íslands sem leiðbeinandi ásamt því að hafa gegn stöðu aðstoðarþjálfara U17 ára landsliðs kvenna.

Þá hefur hann starfað hjá knattspyrnudeild Breiðabliks síðastliðin tvö ár sem annar af yfirþjálfurum barna- og unglingaráðs með sérstaka áherslu á starfsþróunar- og þjónustumál deildarinnar.

„Það að Vilhjálmur taki við Íslandsmeistaraliði Breiðabliks og heldur tengslum við Augnablik styður vel við þá stefnu, samhliða því að Blikar stefna alltaf að því að halda sínum sessi í fremstu röð á Íslandi,“ segir að lokum í tilkynningu Blika en hana má lesa í heild sinni á vef félagsins.

Hér má sjá teymið sem verður Vilhjálmi til handar.Breiðablik



Fleiri fréttir

Sjá meira


×