Íslenski boltinn

Segir Finn hafa kostað rúm­lega tuttugu milljónir

Anton Ingi Leifsson skrifar
Finnur Tómas spilar ekki meira á Íslandi, í bili.
Finnur Tómas spilar ekki meira á Íslandi, í bili. vísir/bára

KR-ingurinn Finnur Tomas Pálmason var um miðjan mánuðinn seldur til IFK Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni. Nú berast fregnir af því að hann hafi kostað rúmlega tuttugu milljónir króna.

Finnur Tomas, sem er nítján ára gamall en verður tvítugur í næsta mánuði, braust inn í lið KR sumarið 2019 þar sem hann spilaði sautján leiki í Íslandsmeistaraliði KR. Að auki spilaði hann þrjá leiki í bikarnum.

Í sumar var hann meira meiddur en náði þó að spila fjórtán leiki í Pepsi Max deildinni áður en allt var blásið af. Hann hefur í allt leikið 52 leiki í meistaraflokki og skorað í þeim tvö mörk en þeir verða ekki fleiri í bili.

Sænska úrvalsdeildarfélagið Norrköping keypti nefnilega Finn Tómas í janúarglugganum og verður hann því samherji Ísaks Bergmanns Jóhannessonar hjá sænska liðinu.

Rætt var um félagaskiptin í útvarpsþættinum Fótbolti.net í gær. Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolti.net, sagði í þættinum að Finnur á að hafa kostað 24 milljónir íslenskra króna.

„Við erum búnir að fá tölur á hvað hann kostaði. Það ku vera 24 milljónir sem KR-ingar fengu. Það er upphæð sem heldur betur skiptir máli fyrir KR sem komst ekki í Evrópukeppni á síðasta ári," sagði Elvar Geir.

Norrköping endaði í sjötta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og þótti það nokkur vonbrigði.

Útvarpsþáttinn má heyra í heild sinni hér að neðan en umræðuna um Finn má heyra eftir rúmlega 11:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×