Erlent

Milljarða samkomulag í höfn um greiðslu bóta til minkabænda

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Málið hefur verið gríðarlega umdeilt í Danmörku síðan ríkisstjórn Mette Frederiksen ákvað að allir minkar í landinu skyldu aflífaðir.
Málið hefur verið gríðarlega umdeilt í Danmörku síðan ríkisstjórn Mette Frederiksen ákvað að allir minkar í landinu skyldu aflífaðir. AP

Samkomulag er í höfn milli dönsku ríkisstjórnarinnar og meirihluta flokka á þingi um greiðslu bóta vegna minkamálsins svokallaða. Samkomulagið tókst loksins í kvöld eftir ríflega tveggja mánaða viðræður og hljóðar það upp á 18,7 milljarða danskra króna, eða sem nemur tæpum 396 milljörðum íslenskra króna.

Danska ríkisstjórnin fyrirskipaði í byrjun nóvember í fyrra að allir minkar í landinu skyldu aflífaðir vegna stökkbreyttrar kórónuveiru sem greindist á minkabúum á Jótlandi. Fljótlega í kjölfarið voru milljónir minka aflífaðir en síðar kom í ljós að fyrirskipun ríkisstjórnarinnar um dráp minkanna var ólögmæt og hefur málið valdið miklu fjaðrafoki í Danmörku.

Líkt og áður segir náðist samkomulag um greiðslu bóta úr ríkissjóði loks í kvöld á milli ríkisstjórnarinnar Sósíaldemókrata og fjögurra annarra flokka, það er SF, Venstre, De Radikale og Liberal Alliance að því er fram kemur í frétt TV2.

Morten Bødskov, starfandi fjármálaráðherra kynnti samkomulagið nú í kvöld en það nær yfir bótagreiðslur sem meðal annars eiga að bæta tjón vegna tapaðra framtíðartekna minkabænda og tap vegna minkaskinna sem ekki var hægt að selja. Þá nær samkomulagið einnig til bótagreiðslna til fyrirtækja og einyrkja sem starfa í afleiddum greinum, svo sem feldskerar, fóðurframleiðendur og uppboðsstarfsemi. Þá er gert ráð fyrir fjármagni til að standa straum af kostnaði við niðurrif bygginga.

Samkomulagið felur einnig í sér svokallað „dvalakerfi“ en tryggðar verða 60 milljónir danskra króna í verkefnið sem á að styðja við minkabændur sem kjósa að hefja starfsemi að nýju þegar banninu við minkarækt lýkur, en bannið gildir út árið 2021.

Bæturnar til minkabænda eru af þrennum toga, það er bætur vegna framtíðartekjumissis á árunum 2022 til 2030, bætur vegna taps vegna ónýtts feldar sem ekki er hægt að selja 2021 og bætur vegna fyrningar eigna á borð við útihús, minkabúr og fleira.

Þá er gert ráð fyrir að á milli 10,9 og 11,9 milljarðar fari í beinar bótagreiðslur til minkabænda sem verða greiddar á einstaklingsgrundvelli miðað við forsendur hvers og eins bónda. Að auki felur samkomulagið í sér ákvæði um stuðning við minkabændur og starfsfólk minkabúa við atvinnuleit.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.