Erlent

Út­lit fyrir töf á af­hendingu AstraZene­ca innan Evrópu­sam­bandsins

Sylvía Hall skrifar
Bóluefni AstraZeneca og vísindamanna við Oxford-háskóla hefur ekki fengið markaðsleyfi innan Evrópusambandsins. 
Bóluefni AstraZeneca og vísindamanna við Oxford-háskóla hefur ekki fengið markaðsleyfi innan Evrópusambandsins.  Getty/Jakub Porzycki

Færri skammtar af bóluefni AstraZeneca verða afhentir innan Evrópusambandsins næstu vikurnar en áætlanir gerðu ráð fyrir. Búist var við hundrað milljónum skammta á fyrsta ársfjórðungi, en samkvæmt Financial Times gætu þeir orðið færri en fjörutíu milljónir.

Ekki liggur fyrir hversu miklu munar, en afkastageta framleiðslustöðva í Evrópu er sögð hafa verið minni en búist var við. Þá eru bráðabirgðaáætlanir um afhendingu sagðar háðar því að bóluefnið fái markaðsleyfi frá Evrópusambandinu, sem vonir standa til að gerist á næstu dögum eða vikum.

Unnið er að því að auka afköstin til að standa undir væntingum og fullyrðir fyrirtækið að „tugir milljóna skammta“ fari í dreifingu innan Evrópusambandsins í febrúar og mars.

Stella Kyriakides, yfirmaður heilbrigðismála hjá Evrópusambandinu, greindi frá töfinni á Twitter-síðu sinni í dag. Hún segir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafa lýst yfir miklum vonbrigðum með fréttirnar, enda hafi verið farið fram á nákvæma afhendingaráætlun svo aðildarríki gætu undirbúið bólusetningar.

„Framkvæmdastjórnin mun áfram krefjast þess að AstraZeneca auki fyrirsjáanlega og stöðugleika í afhendingu og hraði dreifingu skammta,“ skrifaði Kyriakides.

Samkvæmt heimildum Financial Times er mikil óánægja meðal embættismanna Evrópusambandsins. Einn lýsti töfinni sem skammarlegri, enda kæmi hún til með að ýta frekar undir óánægju og gremju meðal aðildarríkja þar sem bólusetningar ganga hægar en vonir stóðu til.

Töfin nær þó ekki aðeins til aðildarríkja Evrópusambandsins, en Noregur mun að öllum líkindum fá færri en 200 þúsund skammta af bóluefninu í febrúar. Afhendingaráætlun hafði gert ráð fyrir 1,1 milljón skömmtum.

Ísland undirritaði samning við AstraZeneca þann 15. október síðastliðinn um 230 þúsund skammta.


Tengdar fréttir

Stefna á markaðs­leyfi fyrir AstraZene­ca eftir rúmar tvær vikur

Lyfjaframleiðandinn AstraZeneca hefur sótt um skilyrt markaðsleyfi fyrir bóluefni sínu gegn kórónuveirunni hjá Lyfjastofnun Evrópu. Umsóknin mun fá flýtimeðferð hjá stofnuninni og leyfið gæti verið gefið út 29. janúar, eftir rúmar tvær vikur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.