Íslenski boltinn

Valur og Fylkir unnu slagina um borgina

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ásdís Karen skoraði tvívegis í kvöld.
Ásdís Karen skoraði tvívegis í kvöld. Vísir/Vilhelm

Tveir leikir fóru fram í Reykjavíkurmóti kvenna í knattspyrnu í kvöld. Valur vann 6-1 sigur á nágrönnum sínum í KR á meðan Fylkir vann Þrótt Reykjavík 3-0.

Í A-riðli vann Valur stórsigur á fjendum sínum í KR. Ásdís Karen Halldórsdóttir – fyrrum leikmaður KR – kom Val yfir á 12. mínútu og sjö mínútum hafði Elín Metta Jensen tvöfaldað forystuna.

Svo virðist sem Mist Edvardsdóttir og Elín Metta hafi báðar meiðst í fyrri hálfleik en þær voru teknar af velli á 23. og 33. mínútu. Fleiri mörk voru þó ekki skoruð og staðan 2-0 í hálfleik.

Ída Marín Hermannsdóttir og Ólöf Sigríður Kristinsdóttir bættu við mörkum fyrir Val áður en Tinna María Tryggvadóttir minnkaði muninn. Diljá Ýr Zomers og Ásdís Karen skoruðu í kjölfarið og leiknum lauk með 6-1 sigri Vals.

Í B-riðli vann Fylkir öruggan 3-0 sigur á Þrótti þar sem Edda Garðarsdóttir, fyrrum landsliðskona og núverandi aðstoðarþjálfari Þróttar, var óvænt í marki liðsins. Bryndís Arna Níelsdóttir kom Fylki yfir á 13. mínútu og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks.

Það var svo á 73. mínútu sem Þórdís Elva Ágústsdóttir tvöfaldaði forystu Fylkis og Birna Kristín Eiríksdóttir bætti því þriðja við undir lok leiks, lokatölur 3-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×