Enski boltinn

Meistararnir ríða á vaðið um mikla bikarhelgi

Sindri Sverrisson skrifar
Arsenal er handhafi bikarmeistaratitilsins og freistar þess að komast áfram í 16-liða úrslit í hádeginu.
Arsenal er handhafi bikarmeistaratitilsins og freistar þess að komast áfram í 16-liða úrslit í hádeginu. Getty/Adam Davy

Þó að risaleikur Manchester United og Liverpool á morgun standi upp úr er fullt af öðrum athyglisverðum leikjum í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í fótbolta nú um helgina.

Bikarveislan hefst á úrvalsdeildarslag þegar Southampton tekur á móti ríkjandi bikarmeisturum Arsenal sem hafa verið að rétta úr kútnum eftir erfiða tíma fyrir áramót.

Leikið er til þrautar í öllum bikarleikjum í vetur, í stað þess að jafntefli þýði að liðin mætist öðru sinni, og því má búast við framlengingum og vítaspyrnukeppnum. Í húfi er sæti í 16-liða úrslitum.

Bikarleikir á íþróttarásum Stöðvar 2 um helgina

Laugardagur:

  • 12.15 Southampton - Arsenal (Stöð 2 Sport 2)
  • 15.00 West Ham - Doncaster (Stöð 2 Sport 2)
  • 17.30 Cheltenham - Man. City (Stöð 2 Sport 2)

Sunnudagur:

  • 12.00 Chelsea - Luton (Stöð 2 Sport 2)
  • 14.30 Fulham - Burnley (Stöð 2 Sport 2)
  • 17.00 Man. Utd - Liverpool (Stöð 2 Sport 2)
  • 20.00 Everton - Sheffield Wednesday (Stöð 2 Sport 4)

Lið úr fjórum deildum eru enn með í keppninni, þar á meðal D-deildarlið Cheltenham sem tekur í dag á móti heitasta liði Englands þessa dagana, Manchester City. Heimavöllur Cheltenham lætur ekki mikið yfir sér, tekur aðeins rúmlega 7.000 manns í sæti, en þar sem að áhorfendabann þá skiptir það svo sem minna máli.

Fjögur Íslendingalið enn með

Hitt D-deildarliðið í keppninni er Crawley Town, sem sló út Leeds með eftirminnilegum hætti í síðustu umferð, en Crawley sækir Bournemouth heim á þriðjudagskvöld.

Frank Lampard er farinn að agnúast opinberlega út í fjölmiðlamenn fyrir neikvæða umfjöllun og má ekki við því að Chelsea misstígi sig gegn Luton á morgun.

Gylfi Þór Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson verða væntanlega á ferðinni með Everton og Burnley. Everton tekur á móti Sheffield Wednesday annað kvöld en Burnley sækir Fulham heim í úrvalsdeildarslag kl. 14.30 á morgun.

Jón Daði Böðvarsson og félagar í Millwall mæta öðru liði úr næstefstu dield, Bristol City, í dag kl. 15. Blackpool, lið Daníels Leós Grétarssonar, sem leikur í C-deild sækir úrvalsdeildarlið Brighton heim á sama tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×