Erlent

Trump gæti fengið Face­book-að­ganginn aftur

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. AP/Evan Vucci

Eftirlitsnefnd um stjórnarhætti samfélagsmiðlarisans Facebook mun nú taka fyrir ákvörðun fyrirtækisins um að úthýsa Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, af miðlinum.

Frá þessu greinir breska ríkisútvarpið. Donald Trump var úthýst af helstu samfélagsmiðlum heims í kjölfar árásar stuðningsmanna hans á bandaríska þinghúsið þann 6. janúar síðastliðinn. Töldu forsvarsmenn miðlana að hann hefði nýtt sér þá til að hvetja fylgjendur sína til að beita ofbeldi.

Nefndin sem mun nú taka fyrir ákvörðun Facebook um að banna Trump á miðlum sínum, Facebook og Instagram, var stofnuð á síðasta ári og er ætlað að taka fyrir umdeildar ákvarðanir fyrirtækisins er lúta að ritstjórn og miðlun efnis. Facebook segir nefndina vera sjálfstæða og óháða.

Bannaður ótímabundið

Í kjölfar árásarinnar á þinghús Bandaríkjanna var Trump bannaður ótímabundið á Facebook og Instagram, en einnig á Twitter, þeim samfélagsmiðli hvar forsetinn hefur látið mest til sín taka. Síðastnefndi miðillinn virðist ekki vera á þeim buxunum að aflétta banninu, en hugsanlegt er að forsetinn fyrrverandi endurheimti aðgang sinn að Facebook.

„Ákvörðun eftirlitsnefndarinnar verður bindandi fyrir Facebook og mun ráða því hvort ótímabundnu banni herra Trumps frá Facebook og Instagram verður aflétt,“ segir í tilkynningu frá Facebook.

Trump verður gefinn kostur á að leggja fram yfirlýsingu til nefndarinnar þar sem hann getur fært rök fyrir því að bannið skuli fellt úr gildi. Fimm manns sitja í nefndinni. Þeirra á meðal eru Helle Thorning-Schmidt, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, og Alan Rusbridger, fyrrverandi ritstjóri Guardian.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×