Enski boltinn

„Liverpool saknar mín meira“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lovren í leik með Zenit í Meistaradeildinni fyrr á leiktíðinni.
Lovren í leik með Zenit í Meistaradeildinni fyrr á leiktíðinni. Giampiero Sposito/Getty Images

Það hefur sjaldan vantað upp á sjálfstraustið hjá Dejan Lovren. Varnarmaðurinn skipti Liverpool út fyrir Zenit frá Pétursborg síðasta sumar en Rússarnir keyptu hann fyrir ellefu milljónir punda.

Lovren var ekki fastamaður í liði Liverpool og vildi vera í liði þar sem hann var fastamaður, sem hann hefur heldur betur verið í Rússlandi. Mikil meiðsli hafa þó herjað á varnarstöðurnar hjá Liverpool á leiktíðinni.

Hefði Lovren verið áfram á Anfield væri hann væntanlega búinn að spila haug af leikjum og hann virðist sjálfur vita af því.

„Ég sé ekki eftir því að hafa farið. Ég vildi fara frá Liverpool og er ekki að horfa til baka. Ég varð pirraður á síðustu leiktíð þegar ég var ekki að spila en nú er þetta öðruvísi,“ sagði Lovren við Sport Express.

„Ég held að Liverpool sakni mín meira en ég sakna þeirra. Jurgen Klopp veit það því við tölum saman og hann sendi mér skilaboð nýlega og sagði að þeir söknuðu mín. Ég talaði við hann eftir ég fór en ég vil ekki fara nánar út í það. Hann talaði bara um góða hluti og ég óskaði honum góðs gengis.“

Virgil van Dijk, Joel Matip og Joe Gomez eru þrír miðverðir Liverpool sem eru búnir að vera á meiðslalistanum að undanförnu en í síðustu leikjum hafa þeir Fabinho og Jordan Henderson verið að leysa stöðu miðvarðar.

Liverpool er í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×