Íslenski boltinn

Óskar Örn með þrennu, Víkingur skoraði sex og Leiknir marði ÍR

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Óskar Örn byrjar árið af krafti.
Óskar Örn byrjar árið af krafti. Vísir/Bára

Það fór fjöldi leikja fram á Reykjavíkurmótinu í fótbolta í kvöld, karla megin það er. Óskar Örn Hauksson skoraði þrennu í sigri KR, Víkingur skoraði sex mörk gegn nágrönnum sínum í Þrótti og Leiknir vann erkifjendur sína í ÍR.

Í A-riðli vann Víkingur Reykjavík 6-1 sigur á nágrönnum sínum í Þrótti Reykjavík. Mörk Víkings skoruðu þeir Nikolaj Hansen (2), Helgi Guðjónsson, Erlingur Agnarsson, Tómas Guðmundsson og Sigurður Steinar Björnsson. Daði Bergsson skoraði mark Þróttar.

Víkingur leikur í Pepsi Max-deildinni næsta sumar en Þróttur R. rétt svo hélt sæti sínu í Lengjudeildinni. Var þetta annar leikur Víkinga í keppninni en þá tapaði liðið 4-1 gegn Íslandsmeisturum Vals. Önnur lið hafa aðeins leikið einn leik.

Þá vann Leiknir Reykjavík nauman 1-0 sigur á ÍR í hinum leik riðilsins.

Í B-riðli vann KR 3-2 sigur á Fjölni. Óskar Örn Hauksson skoraði öll mörk KR á meðan þeir Viktor Andri Hafþórsson og Arnór Breki Ástþórsson skoruðu mörk Fjölnis. Í liði Grafarvogsbúa voru tveir fyrrum KR-ingar, þeir Dofri Snorrason og Baldur Sigurðsson.

Í hinum leik riðilsins vann Fylkir 3-2 sigur á Fram. Var þetta fyrsti leikur allra liðanna í keppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×