Íslenski boltinn

Íslendingatríó í Le Havre

Sindri Sverrisson skrifar
Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir í skallabaráttu í sigrinum mikilvæga gegn Val undir lok síðasta tímabils.
Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir í skallabaráttu í sigrinum mikilvæga gegn Val undir lok síðasta tímabils. vísir/Hulda

Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir, miðjumaður Breiðabliks, er komin út til Le Havre í Frakklandi þar sem hún verður að láni fram að leiktíð í Pepsi Max deildinni.

Andrea, sem er samningsbundin Breiðabliki út þetta ár, verður þar með þriðji Íslendingurinn í röðum Le Havre. Landsliðskonurnar Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Anna Björk Kristjánsdóttir fóru þangað báðar í september í fyrra.

Le Havre leikur í efstu deild Frakklands en hefur átt afar erfitt uppdráttar. Eftir sigur í fyrstu umferð hefur liðið tapað níu leikjum og gert eitt jafntefli. Liðið er á botni deildarinnar en þó aðeins þremur stigum frá næsta örugga sæti.

Andrea Rán fylgist með Öglu Maríu Albertsdóttur og Elínu Mettu Jensen kljást, tilbúin að verjast.vísir/daníel

Breiðablik varð Íslandsmeistari á síðustu leiktíð en hefur misst sannkallaða lykilleikmenn úr meistaraliðinu. Andrea er hins vegar væntanleg til baka 1. maí.

Berglind fór reyndar á miðju síðasta tímabili. Sveindís Jane Jónsdóttir sneri heim úr láni frá Keflavík áður en Þýskalandsmeistarar Wolfsburg tryggðu sér hana og lánuðu til Kristianstad í Svíþjóð. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er að ganga frá samningi við Bayern München, toppliðið í Þýskalandi, og Sonný Lára Þráinsdóttir ákvað að láta gott heita sem markvörður Blika.

Þá hefur þjálfarinn Þorsteinn Halldórsson verið orðaður við stöðu landsliðsþjálfara kvenna sem er laus.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.