Enski boltinn

Sir Alex hefur þekkt Marcus Rashford síðan strákurinn var sjö ára

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Rashford fagnar marki fyrir Manchester United á móti Wolverhampton Wanderers á Old Trafford.
Marcus Rashford fagnar marki fyrir Manchester United á móti Wolverhampton Wanderers á Old Trafford. Getty/Michael Regan

Sir Alex Ferguson, fyrrum knattspyrnustjóri Manchester United, sendi framherjanum Marcus Rashford flotta kveðju í gærkvöldi.

Marcus Rashford náði reyndar ekki að spila fyrir Sir Alex Ferguson en knattspyrnustjórinn sigursæli vissi samt af honum.

Marcus Rashford fékk í gærkvöldi sérstaka viðurkenningu frá samtökum fótboltablaðamanna fyrir framlag sitt utan vallar en hann hefur barist fyrir að fátæk börn í Bretlandi fái mat í skólanum.

Margir hafa hrósað leikmanninum unga fyrir þetta baráttumál hans og hefur hann sýnt mikinn þroska í herferð sinni. Ferguson var mjög ánægður með að uppalinn strákur hjá Manchester United sé að gera svona góða hluti og fá svona verðlaun.

Við það tilefni sendi Sir Alex líka Marcus Rashford kveðju og hrósaði þar stráknum eins og sjá má hér fyrir neðan.

„Ég vil óska Marcus til hamingju með afrek sín og framsögu sína hér í kvöld. Ég hef þekkt strákinn síðan að hann var sjö ára gamall og ég sá hann koma upp í gegnum unglingastarfið hjá Manchester United,“ sagði Sir Alex Ferguson.

„Hann er orðinn yndisleg manneskja og fyrir utan fótboltalífið hans þá er magnað að sjá hvað hann hefur afrekað utan vallarins. Hann hefur hjálpað fólki sem hefur þurft mikið á því að halda,“ sagði Sir Alex.

„Hann hefur ekki síst sýnt ungu fólki að það eru til aðrar leiðir til að fara í lífinu. Hann hefur sýnt mikla manngæsku og hugrekki að gera það sem hann hefur gert. Hann á þetta mikið skilið. Marcus vel gert,“ sagði Sir Alex Ferguson eins og sjá má hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×