Erlent

Þing­menn Repúblikana snúast gegn Trump

Atli Ísleifsson og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Liz Cheney er í hópi valdamestu Repúblikananna í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Hún er dóttir fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, Dick Cheney.
Liz Cheney er í hópi valdamestu Repúblikananna í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Hún er dóttir fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, Dick Cheney. Getty

Kapphlaup Demókrata á Bandaríkjaþingi til að koma Donald Trump forseta frá völdum með ákæru fyrir brot í starfi virðist vera að fá nokkurn byr í seglin en nú þegar hafa þó nokkrir Repúblikanar sagst ætla að samþykkja tillöguna.

Demókratar reyndu í fyrstu að fá Mike Pence varaforseta til að virkja 25. grein stjórnarskrárinnar og koma Trump þannig frá völdum en Pence lýsti því yfir í gær að það myndi hann ekki gera. Nú stendur því til að ákæra Trump, öðru sinni, fyrir brot í embætti. Í raun þurfa Demókratar ekki á stuðningi Repúblikana í fulltrúadeildinni að halda því þar eru þeir með meirihluta, en svo virðist sem þónokkrir þeirra ætli samt sem áður að slást í hópinn með Demókrötum og samþykkja að ákæra forsetann.

Liz Cheney bættist í hópinn í gærkvöldi en hún er hópi valdamestu Repúblikananna í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Cheney, sem er dóttir fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, Dick Cheney, hét því að greiða atkvæði með tillögunni um ákæru og segir hún að aldrei áður í sögu landsins hafi forseti brotið eins alvarlega gegn stjórnarskrá landsins og gegn sjálfu forsetaembættinu.

Cheney sakar Trump um að bera höfuðábyrgðina á því að ráðist var inn í þinghúsið á dögunum þar sem fimm létu lífið. Tveir aðrir fulltrúadeildarþingmenn, John Katko og Adam Kinzinger, hafa einnig sagst ætla að greiða atkvæði með ákærunni.

Trump sjálfur hélt ræðu í gær þar sem hann hafnaði því að bera nokkra ábyrgð á óeirðunum og kallaði tilraunir Demókrata til að koma honum frá völdum nornaveiðar.

Verði samþykkt að ákæra forsetann í fulltrúadeildinni mun málið færast til öldungadeildarinnar þar sem réttað verður yfir forsetanum, að því gefnu að það verði samþykkt. Þar eru Repúblikanar nú í meirihluta, en Demókratar ná þar völdum þann 20. janúar næstkomandi.


Tengdar fréttir

Segist enga ábyrgð bera

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir gífurlega reiði í Bandaríkjunum vegna þess að fulltrúadeild þingsins undirbúi að kæra hann aftur fyrir embættisbrot. Að þessu sinni er verið að kæra hann fyrir að hvetja fólk til uppreisnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×