Erlent

Munu ekki þrýsta á þingmenn að segja nei við ákærum á hendur Trump

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þingforysta Repúblikanaflokksins virðist vera búin að fá sig fullsadda af uppátækjum forsetans.
Þingforysta Repúblikanaflokksins virðist vera búin að fá sig fullsadda af uppátækjum forsetans. epa

Leiðtogar Repúblikanaflokksins í fulltrúadeild bandaríska þingsins hafa ákveðið að þrýsta ekki á flokksfélaga sína um að greiða atkvæði gegn því að Donald Trump Bandaríkjaforseti verði ákærður fyrir embættisbrot.

Um er að ræða algjöra stefnubreytingu frá því að kosið var um ákærur gegn Trump í fyrra skiptið en þá var hart lagt að þingmönnum flokksins að standa með forsetanum.

Kevin McCarthy, leiðtogi minnihlutans í neðri deildinni, hefur sagt að hann muni sjálfur greiða atkvæði gegn ákærum og leitast við að stýra öðrum í sömu átt. Hann hefur hins vegar varað samflokksmenn sína við því að tala illa um þá sem greiða atkvæði með, þar sem það kunni að stofna lífi viðkomandi í hættu.

McCarthy ræddi við Trump í síma í dag og sagði eftir á að forsetinn hefði að hluta gengist við ábyrgð sinni vegna atburðarásarinnar í þinghúsinu á dögunum. Símtalinu hefur hins vegar verið lýst sem spennuþrungnu.

Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikanaflokksins í öldungadeildinni hefur lítið tjáð sig um ákærurnar en tveir samflokksmenn hans í efri deildinni hafa kallað eftir afsögn forsetans og ráðgjafar hans hafa sagt við fjölmiðla að allt að tólf eða svo gætu greitt atkvæði með ákærum.

Ef allir þingmenn öldungadeildarinnar greiða atkvæði þurfa sautján repúblikanar að greiða atkvæði með demókrötum til að sakfella forsetann.

Gengið verður til atkvæða á morgun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.