Bæði þingmenn úr röðum Repúblikana- og Demókrataflokksins hafa lýst þeirri skoðun sinni að það sé ótækt að Trump sitji lengur í embætti eftir atburði gærdagsins, þegar múgur réðst inn í þinghúsið til þess að lýsa yfir stuðningi við hann og mótmæla kjöri Biden.
Viðbrögð Trump hafa verið harðlega gagnrýnd þar sem hann gerði lítið til þess að lægja öldurnar og sagðist skilja reiði þeirra. Fjórir létust í árásinni á þinghúsið, þar á meðal ein kona, stuðningsmaður Donalds Trump, sem skotin var til bana af lögreglu.
Samfélagsmiðlarisarnir Facebook og Twitter sáu ástæðu til þess að taka færslur forsetans til skoðunar og var lokað á aðgang hans í kjölfar þeirra.
Adam Kinzinger, þingmaður Repúblikanaflokksins, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann kallar eftir því að viðaukinn verði virkjaður. Það sé nauðsynlegt til þess að vernda lýðræðið.
„Gærdagurinn var sorgardagur eins og við vitum öll,“ sagði hann og bætti við að Trump og aðrir leiðtogar bæru mikla ábyrgð á því sem gerðist í gær. Styrkur stjórnarskrárinnar og lýðræðisins hafi þó haldið en það væri nauðsynlegt að grípa til aðgerða til þess að tryggja öryggi bandarísku þjóðarinnar.
It’s with a heavy heart I am calling for the sake of our Democracy that the 25th Amendment be invoked. My statement: pic.twitter.com/yVyQrYcjuD
— Adam Kinzinger (@RepKinzinger) January 7, 2021
Þá hefur Chuck Schumer, leiðtogi Demókrataflokksins í öldungadeild Bandaríkjaþings, sagt óásættanlegt að Trump sitji áfram í embætti. Samflokkskona hans í fulltrúadeildinni, þingkonan Alexandria Ocasio-Cortez, segir nauðsynlegt að þingið komi saman og hefji ákæruferli ef viðaukinn verði ekki virkjaður.
„Við búum ekki svo vel að hafa tíma,“ skrifaði hún.
If the 25th amendment is not invoked today, Congress must reconvene immediately for impeachment and removal proceedings.
— Alexandria Ocasio-Cortez (@AOC) January 7, 2021
Í gær var greint frá því að óformlegar viðræður hefðu átt sér stað innan ríkisstjórnarinnar um að virkja viðaukann og að Mike Pence, fráfarandi varaforseti, tæki þá við embætti forseta fram að embættistöku Biden. Ekkert var þó staðfest í þeim efnum en svo virðist sem fleiri séu sammála þeirri skoðun.