Íslenski boltinn

Bayern festir kaup á Karólínu

Sindri Sverrisson skrifar
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir heldur til Þýskalands á morgun.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir heldur til Þýskalands á morgun. vísir/bára

Karólína Lea Vilhjalmsdóttir, landsliðskona í fótbolta, hefur náð samkomulagi um samning til þriggja og hálfs árs við þýska stórveldið Bayern München.

Karólína, sem er uppalin hjá FH, hefur verið leikmaður Breiðabliks frá haustinu 2017 og skrifaði í fyrra undir samning við Blika sem gilti til ársins 2023. Eftir viðræður komust Bayern og Breiðablik að samkomulagi um kaupverð sem ekki liggur fyrir hvert er.

Karólína heldur út til Þýskalands á morgun og mun þá formlega skrifa undir samning að undangenginni læknisskoðun. Karólína er reyndar að jafna sig af meiðslum eftir að hafa rifið liðþófa í hné í vetur, sem varð til þess að hún gat ekki spilað síðustu tvo leikina í undankeppni EM fyrir rúmum mánuði.

Karólína er tvítugur, sóknarsinnaður miðjumaður og kantmaður. Hún stimplaði sig inn í A-landsliðið með góðri frammistöðu í haust þegar hún spilaði tvo mikilvæga leiki við Svíþjóð og einn við Lettland. Áður hafði hún leikið einn vináttulandsleik, gegn Finnlandi sumarið 2019.

Karólína stimplaði sig inn í A-landsliðið með mjög góðri frammistöðu gegn Svíum á Laugardalsvelli.vísir/vilhelm

Bayern er á toppi þýsku 1. deildarinnar með fullt hús stiga eftir tólf leiki. Liðið er fimm stigum fyrir ofan ríkjandi meistara Wolfsburg sem á dögunum tryggðu sér Sveindísi Jane Jónsdóttur, annan burðarás úr Íslandsmeistaraliði Breiðabliks á síðustu leiktíð. Bayern er komið í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu en leikið verður í þeim í byrjun mars.

Bayern hafnaði í 2. sæti á síðustu leiktíð, átta stigum á eftir Wolfsburg sem þá var með Söru Björk Gunnarsdóttur í sínum herbúðum. Bayern varð síðast Þýskalandsmeistari árið 2016, þá annað árið í röð. Dagný Brynjarsdóttir lék með Bayern fyrra árið, 2015.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.