Enski boltinn

Solskjær í Manchester-slaginn án afsakana

Sindri Sverrisson skrifar
Ole Gunnar Solskjær ætlar sér að vinna titla með Manchester United.
Ole Gunnar Solskjær ætlar sér að vinna titla með Manchester United. Getty/Rui Vieira

Ole Gunnar Solskjær segir að það yrði stórt skref fyrir lið sitt að landa titli en Manchester United mætir Manchester City í undanúrslitum enska deildabikarsins í fótbolta annað kvöld.

United hefur ekki landað titli síðan vorið 2017 þegar liðið vann Evrópudeildina. Liðið komst í undanúrslit deildabikarsins í fyrra og mætti þá einnig City en tapaði einvíginu samanlagt 3-2 í tveimur leikjum. Vegna kórónuveirufaraldursins verða ekki tveir leikir á milli liðanna nú heldur verður leikið til þrautar á Old Trafford annað kvöld.

„Við erum með gott sjálfstraust,“ sagði Solskjær á blaðamannafundi fyrir leikinn á morgun. Hann er með sinn sterkasta hóp fyrir utan að Edinson Cavani tekur út annan leikinn í þriggja leikja banni sem hann fékk fyrir skrif á samfélagsmiðlum.

„Við förum í þennan leik í góðu formi svo það eru engar afsakanir. Næsti leikur er alltaf mikilvægur en í undanúrslitaleik fær maður tækifæri til að komast í úrslitaleik og krækja í bikar, sem yrði mjög stórt skref fyrir þetta lið,“ sagði Solskjær.

„Við höfum þróast mikið síðustu tólf mánuðina frá því að við vorum síðast í undanúrslitum deildabikarsins. En þetta snýst ekki bara um að læra að vinna undanúrslitaleiki. Við höfum líka unnið fyrir því að líða þannig að við getum farið alla leið með okkar frammistöðu. Maður spilar fótbolta til að vinna titla, jafnvel þó að þegar maður vinnur titil þá stefni maður bara á þann næsta. Þetta eykur hungrið í að fá meira. Hópurinn er einbeittur og við erum klárir í slaginn og teljum okkur vel undirbúna fyrir þennan leik,“ sagði Solskjær.


Carabao Cup er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Carabao Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×