Enski boltinn

Fær fimm skiptinga óskina sína uppfyllta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pep Guardiola má loksins gera fimm skiptingar þegar Manchester City sækir Manchester United heim í undanúrslitum enska deildabikarsins annað kvöld.
Pep Guardiola má loksins gera fimm skiptingar þegar Manchester City sækir Manchester United heim í undanúrslitum enska deildabikarsins annað kvöld. getty/Peter Powell

Gera má fimm skiptingar í undanúrslitum og úrslitaleik enska deildabikarsins í fótbolta.

Leikið verður í undanúrslitum deildabikarsins í dag og á morgun. Í kvöld mætast Tottenham og Brentford og annað kvöld er komið að leik Manchester-liðanna, United og City.

Í gær var greint frá því að lið mættu gera fimm skiptingar í þeim leikjum sem eftir eru í deildabikarnum en ekki þrjár eins og venjulega. Þá mega lið vera með níu leikmenn á varamannabekknum. Ef leikirnir verða framlengdir mega liðin gera aukaskiptingu þá.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, ætti að gleðjast yfir þessu en hann vill að liðin í ensku úrvalsdeildinni fái að gera fimm skiptingar í leikjum eins og lið í öðrum stóru deildum Evrópu.

Þessar breytingar hafa ekki mikil áhrif á Thomas Frank, stjóra Brentford, en liðin í ensku B-deildinni mega gera fimm skiptingar í leikjum.

Venjulega er leikið heima og að heiman í undanúrslitum deildabikarsins en því var breytt á þessu tímabili til að minnka álag á leikmenn vegna þéttrar leikjadagskrár.

Leikur Tottenham og Brentford hefst klukkan 19:45 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.


Carabao Cup er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Carabao Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×