Carrie Lam, leiðtogi Hong Kong, segir að „eitt ríki, tvö kerfi“ gæti verið við lýði löngu eftir að það rennur formlega út árið 2047. Eingöngu þó ef ungt fólk Hong Kong skemmir það ekki með „tímabundnum misskilningi“. Hún sagði að ungir mótmælendur gætu sjálfir leitt til enda samkomulagsins með aðgerðum sínum og mótmælum.
Umfangsmikil mótmæli hafa staðið yfir í Hong Kong um mánaða skeið og segja mótmælendur yfirvöld í Peking grafa undan lýðræði þeirra og samkomulaginu við Breta.
Eitt ríki, tvö kerfi var forlega sett á þegar Bretar afhentu Kínverjum Hong Kong árið 1997. Það átti að tryggja lýðræðisleg réttindi íbúa svæðisins í minnst 50 ár.
Yfirvöld Kína segjast ekki vera að grafa undan lýðræði Hong Kong og saka Vesturveldin um að ýta undir mótmælin.
Mótmælin hófust í kjölfar þess að Lam ætlaði að ná frumvarpi í gegnum þing Hong Kong sem hefði gert yfirvöldum þar kleift að framselja hvern sem er til meginlands Kína, án dóms og laga. Þau stækkuðu og breyttust síðar í mótmæli fyrir almennum lýðræðisbótum og gegn hörku lögreglunnar.

Hafnaði fregnum um hörku lögreglu
Lam hélt sína fyrstu ræðu ársins á þingi Hong Kong í morgun. Samkvæmt frétt Reuters sagði hún að til þess að viðhalda „tvö kerfi“-hluta samkomulagsins við Breta þyrfti að virða og halda við „eitt ríki“-hlutanum.
„Sá atburður sem þau óttast í dag, gæti komið til vegna þeirra eigin aðgerða,“ sagði Lam. Þannig gaf hún í skyn að ef mótmælin haldi áfram óbreytt muni yfirvöld Kína brjóta þau á bak aftur og rifta „eitt ríki, tvö kerfi“.
Hún hafnaði einnig alfarið að lögreglan í Hong Kong hefði komið fram við mótmælendur af hörku og sagði að þess í stað hefði lögreglan orðið fyrir rógsherferð sem ætlað væri að grafa undan getu lögregluþjóna til að sinna skyldum sínum.
„Ef enginn var að brjóta lögin, af hverju ætti lögreglan þá að vera að framfylgja lögunum,“ sagði Lam.
Hún sagði mótmælin hafa leitt af sér „sláandi“ ofbeldi og eyðileggingu. Þar að auki hafi ónákvæmur fréttaflutningur og falsfréttir skaðað orðspor Hong Kong.
Hópur þingmanna kallaði að Lam á meðan hún flutti ræðu sína og var hún meðal annars kölluð „gagnslaus“. Einhverjir sögðu ofbeldið vera til komið vegna hörku lögreglunnar og ein þingkona sagði Lam vera lygara. Henni var svo vísað úr salnum auk tíu annarra þingmanna.
Hér má sjá útskýringu South China Morning Post á því hvað „eitt ríki, tvö kerfi“ er í rauninni.